Spænskur miðill fjallar um Jón Baldvin

Greint er frá máli Jóns Baldvins Hannibalssonar í spænska miðlinum …
Greint er frá máli Jóns Baldvins Hannibalssonar í spænska miðlinum Granada Hoy í dag. mbl.is/RAX

Spænski fjölmiðillinn Granada Hoy fjallar í dag um mál Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem fjölmargar konur hafa sakað um kynferðislega áreitni og ofbeldi undanfarnar vikur. Sérstaklega er fjallað um atvik sem Carmen Jóhannsdóttir greindi frá og segir hafa átt sér stað á heimili Jóns Baldvins og Bryndísar Schram í bænum Salobreña, sunnan við Granada á Suður-Spáni.

Granada Hoy rekur atvikið sem Carmen hefur lýst fyrir hérlendum fjölmiðlum, en það segir hún hafa átt sér stað síðasta sumar, eftir leik Íslands og Argentínu á HM í Rússlandi, er hún var gestkomandi á heimili Jóns og Bryndísar ásamt móður sinni.

Miðillinn hefur það sömuleiðis eftir Carmen að lögmenn hennar séu að skoða hvort betra sé að kæra umrætt atvik á Íslandi eða á Spáni.

Einnig er fjallað almennt um umfjöllun hérlendra fjölmiðla um ásakanir á hendur ráðherranum fyrrverandi og MeToo-hópinn á Facebook, þar sem konur hafa opnað sig varðandi áreitni af hálfu Jóns Baldvins og hartnær 700 manns eru í.

Sérstaklega er vakin athygli á tengingu Jóns Baldvins og Bryndísar við bæinn Salobreña, en þau keyptu þar sumarhús árið 2008, eins og greint var frá í fjölmiðlinum sáluga 24 stundum og hér á mbl.is á sínum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert