Kona, sem dæmd hefur verið í fangelsi hér á landi fyrir að hafa bitið af hluta af tungu eiginmanns síns, ræðir sína hlið málsins í samtali við ástralska fréttavefinn 9news í dag. Konan, Nara Walker sem er ástralskur ríkisborgari en hefur verið búsett hér á landi um tíma, segist aðeins hafa verið að verja sig gegn ofbeldishneigðum eiginmanni.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Walker í tólf mánaða fangelsi, þar af níu mánuði skilorðsbundna, en Landsréttur þyngdi dóminn í 18 mánuði, þar af 15 mánuði skilorðsbundna, fyrir stórfellt ofbeldisbrot í nánu sambandi. Þá var henni gert að greiða eiginmanni sínum 1,8 milljónir króna í miskabætur og konu sem hún var sakfelld um að ráðast einnig á 300 þúsund krónur. Fram kemur í viðtalinu að Walker hafi áfrýjað málinu til Hæstaréttar.
Walker rekur í viðtalinu samband sitt við eiginmann sinn, sem er franskur ríkisborgari, sem hún segir að hafi einkennst af ofbeldi hans í hennar garð um árabil. Kvöldið sem hún hafi bitið af hluta af tungu hans hafi þau verið að skemmta sér heima hjá sér með bandarískum ferðamanni og íslenskri konu. Áfengi hafi verið haft um hönd og til ósættis komið.
Bandaríkjamaðurinn hafi ætlað að yfirgefa íbúðina og hún með honum en eiginmaður hennar hrint Bandaríkjamanninum niður stigann í stigaganginum. Bandaríkjamaðurinn hafi legið hjálparvana í stiganum og eiginmaður hennar gengið að honum. Hún hafi ekki komist fram hjá honum og hann komið í veg fyrir að hún kæmist burt.
Walker segir eiginmann hennar hafa öskrað á hana og hrint henni niður stigann. Hann hafi síðan byrjað að berja hana. Eftir að hann hefði barið hana ítrekað hafi hann tekið hana upp og farið með hana inn í íbúðina. Hún hafi aftur reynt að flýja en ekki getað það. Hann hafi á sama tíma kallað hana illum nöfnum og sagt að hann ætti hana.
Walker segist hafa átt erfitt með andardrátt á þessum tímapunkti og þá hafi hann troðið tungunni á sér ofan í kokið á henni. Hún hafi brugðist við með því að bíta hann í tunguna. Það hafi ekki verið að yfirlögðu ráði. Til átaka hafi komið í kjölfarið sem íslenska konan hafi blandast í. Lögreglan hafi síðan mætt á staðinn og handtekið hana.
Walker segir eiginmann hennar hafa beitt hana ítrekuðu ofbeldi og meðal annars hafa nauðgað henni og byrlað henni lyf. Hún hafi skömmu áður en umrætt mál kom upp ákveðið að skilja við hann. Fram kemur í fréttinni að fréttavefurinn hafi séð textaskilaboð frá eiginmanni hennar til hennar sem virðist fela í sér viðurkenningu á líkamsárásum og nauðgun.
Walker telur sig ekki hafa notið réttlátrar málsmeðferðar hér á landi. Hún hafi verið með ýmsa áverka þegar hún var handtekin en ekki verið flutt undir læknishendur. Hún hafi kært eiginmann sinn en málið virtist hafa verið sett ofan í skúffu. Ákveðið hafi verið að hún væri sek um leið og lögreglan hafi mætt á staðinn. Kerfið hér á landi væri greinilega frekar hannað í þágu ofbeldisfólks en fórnarlamba.
Walker vill meina að dómstólar hafi ekki tekið nægt tillit til þess að hún hafi verið að verja sig og segir eiginmann sinn og íslensku konuna, sem hún segir að séu nú í sambandi, hafa logið fyrir dómi. Hún væri sannfærð um að hann hafi ætlað að drepa hana þetta kvöld.