Aðstoð sundlaugargesta skipti sköpum

Lágafellslaug í Mosfellsbæ. Mynd úr safni.
Lágafellslaug í Mosfellsbæ. Mynd úr safni. Ljósmynd/Facebook

Það skipti sköpum er ungur maður fannst meðvitundarlaus á botni Lágafellslaugar í gærkvöldi að gestir sundlaugarinnar komu manninum til aðstoðar. Þetta segir Sigurður Guðmundsson, forstöðumaður Lágafellslaugar.

Mbl.is greindi frá því í gær að karlmaður á þrítugsaldri hefði verið hætt kominn í Lágafellslaug í Mosfellsbæ.

Sigurður segist hafa heyrt í föður mannsins í morgun, sem segi son sinn vera á góðum batavegi.

At­vikið átti sér stað um klukk­an hálf­átta í gærkvöldi. Margt fólk var í lauginni á þeim tíma og segir Sigurður einn sundlaugargesta hafa fyrstan orðið var við manninn. Þó að myndavélakerfi Lágafellslaugar sé gott, sé það þó sem betur fer einnig svo að sundlaugagestir sjái það stundum fyrst ef eitthvað gerist.

„Þessi ungi maður var að synda kafsund og var að reyna að synda eins langt og hann gæti. Honum hefur þá sennilega svelgst á og endað á botni laugarinnar,“ segir Sigurður.

„Það er gestur í lauginni sem kom fyrst auga á hann og aðstoðar við að koma honum upp á bakkann.“ Í kjölfarið komu starfsmenn laugarinnar að með hjartastuðtæki og annan viðeigandi búnað og hófu endurlífgun. Þeim til aðstoðar kom svo sjúkraflutningamaður sem var meðal gesta laugarinnar. „Hann aðstoðaði okkur mikið,“ segir Sigurður.

Maðurinn var kominn til meðvitundar er sjúkrabíll kom á staðinn, þótt ekki liðu nema tvær mínútur frá því útkallið barst og þar til bíllinn var kominn á staðinn.

„Það er bjargvættur fyrir íþróttamannvirkin okkar að hafa slökkviliðsstöðina hér í túnfætinum,“ bætir Sigurður við. „Það er mikill munur frá því sem áður var, þegar bíða þurfti allt að kortér eftir bíl. Þessi slökkvistöð er ómetanleg fyrir þetta samfélag okkar,“ segir hann og kveður atvikið í gær vera eitt það alvarlegasta sem komið hefur upp frá því Lágafellslaug opnaði árið 2007.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert