Stjórn heilbrigðisumdæmisins í Stokkhólmi hefur ákveðið að ráða Björn Zoëga í stöðu forstjóra Karólínska sjúkrahússins í Svíþjóð, að því er segir á heimasíðu heilbrigðisumdæmisins í Stokkhólmi.
„Ég er bæði stoltur og ánægður með að hafa hlotið tækifæri til þess að leiða Karólínska sjúkrahúsið. Hér er þekking á heimsmælikvarða,“ er haft eftir Birni.
Björn sem er sérfræðingur á sviði bæklunarskurðlækninga gegndi stöðu forstjóra Landspítalans árin 2008 til 2013.
Hann hefur meðal annars gegnt stöðu forstjóra bæklunarstofunnar GHP Stockholms Spine Center sem hefur verið stærsta einingin í hryggskurðlækningum á Norðurlöndum, en þar eru framkvæmdar 25% allra hryggskurðaðgerða í Svíþjóð.