Heildarfjöldi farþega um Keflavíkurflugvöll minnkar árið 2019 og hlutfall skiptifarþega verður lægra en áður, samkvæmt nýrri farþegaspá Isavia, sem gerir ráð fyrir því að 8,95 milljónir farþega fari um Keflavíkurflugvöll á þessu ári, tæpri milljón færri en í fyrra. Þó er gert er ráð fyrir lítilli fækkun komu- og brottfararfarþega.
Farþegar um Keflavíkurflugvöll voru 9,8 milljónir á síðasta ári, en upphaflegar spár Isavia gerðu ráð fyrir því að þeir yrðu 10,4 milljónir.
Farþegaspáin er nú kynnt á fjölmennum morgunfundi Isavia á Hilton Nordica-hótel, en venjulega hafa þessar spár verið kynntar í lok nóvember, en nú er spáin því kynnt um tveimur mánuðum seinna en venjan er, vegna óvissu með stöðu WOW air.
Spáin sýnir fækkun farþega í fyrsta skipti frá 2009, þegar vaxtarskeið flugvallarins hófst, en skýringin á því er minna framboð flugs en undanfarin ár.
Isavia býst við því í spá sinni að ferðum Íslendinga um flugvöllinn fari fækkandi og að erlendir ferðamenn verði 55 þúsundum færri en þeir voru árið 2018.
„Stærstu fréttirnar í spánni er[u] þó þær að þrátt fyrir mikla óvissu undanfarnar vikur þá er fækkunin ekki mjög mikil og mun árið 2019 verða svipað að stærð og árið 2017 sem talið var mjög gott ár í ferðaþjónustunni,“ segir í farþegaspánni.