Ríflega 6.500 fleiri erlendir ríkisborgarar fluttu til landsins í fyrra en fluttu þá frá landinu. Með því hafa um 25.500 fleiri erlendir ríkisborgarar flutt til landsins en frá því frá árinu 2012. Til samanburðar fjölgaði íbúum um 37.500 á tímabilinu.
Ef íbúafjölgunin í ár verður jafn hröð og í fyrra má ætla að landsmenn verði orðnir 360 þúsund síðla vors, eða 80 þúsundum fleiri en 2000 og 45 þúsundum fleiri en árið 2008.
Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar, miðspá, munu ríflega 15 þúsundum fleiri flytja til landsins en frá því árin 2019 til 2022. Miðað við þróunina á þessari öld verður þorri þeirra erlendir ríkisborgarar. Nær öll ár þessarar aldar hafa enda fleiri íslenskir ríkisborgarar flutt frá landinu en til þess.
Violeta Calian, sérfræðingur á Hagstofunni, segir rannsóknir Hagstofunnar benda til að annar hver erlendur ríkisborgari sem hingað flytur fari af landi brott innan tveggja ára. Vandasamt sé að spá um fjölgunina.
Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, segir mikinn launajöfnuð á Íslandi valda því að eftirsóknarvert sé fyrir ófaglærða útlendinga að komast í störf á Íslandi, til dæmis í ferðaþjónustu. Að sama skapi fæli mikill jöfnuður menntað fólk frá Íslandi. Það leiti í betur borguð störf erlendis.
„Það eru gjarnan hærri laun í útlöndum fyrir fólk með markaðsvæna menntun. Á Norðurlöndum eru það fjölþjóðleg fyrirtæki sem bjóða bestu starfstækifærin. Slíkt skortir hérlendis að einhverju leyti.“