Hallgrímur Helgason, Sigrún Eldjárn, Hörður Kristinsson, Jón Baldur Hlíðberg og Þóra Ellen Þórhallsdóttir hlutu rétt í þessu Íslensku bókmenntaverðlaunin 2018 er þau voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í 30. sinn, en það var forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem afhenti verðlaunin.
Hallgrímur Helgason hlaut verðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir skáldsöguna Sextíu kíló af sólskini, Sigrún Eldjárn í flokki barna- og ungmennabóka fyrir skáldsöguna Silfurlykillinn og Hörður Kristinsson, Jón Baldur Hlíðberg og Þóra Ellen Þórhallsdóttir í flokki fræðibóka og rita almenns efnis fyrir bókina Flóra Íslands. Blómplöntur og byrkningar. Verðlaunaféð nemur einni milljón króna fyrir hvert vinningsverk.
Fjögurra manna lokadómnefnd valdi vinningsverkin úr hópi fimmtán bóka sem tilnefndar voru 1. desember, en fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokki. Lokadómnefnd skipuðu að þessu sinni Steingrímur Þórðarson, Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, Þórunn Sigurðardóttir og Gísli Sigurðsson, sem jafnframt var formaður nefndarinnar.
„Það er alltaf gaman að fá viðurkenningar. Og kannski sérstaklega fyrir þessa bók sem mér finnst nú með því betra sem ég hef gert,“ segir Hallgrímur Helgason, höfundur skáldsögunnar Sextíu kíló af sólskini. Hann hefur fjórum sinnum áður verið tilnefndur til verðlaunanna, árið 2015 fyrir Sjóveikur í München; 2011 fyrir Konan við 1000°; 2005 fyrir Rokland og 2001 fyrir Höfundur Íslands sem sigraði það árið.
„Maður er að verða sextugur og kannski hefur manni farið eitthvað fram á öllum þessum árum,“ segir Hallgrímur og tekur fram að í sínum huga standi kannski Höfundur Íslands og Sextíu kíló af sólskini upp úr á sínum rithöfundarferli. „Höfundur Íslands var reyndar metnaðarfyllri og flóknari bók, en í Sextíu kílóum af sólskini finnst mér koma saman margir tónar sem ég hef verið að nota í gegnum tíðina. Hún býr yfir groddalegri kómedíu eins og í Þetta er allt að koma, það er þjóðaranalýsa og krítík eins og í Roklandi, það er klassískur sveitastíll eins og í Höfundi Íslands og jafnvel fantasía eins og í Herra Alheimi. Þannig má segja að ég noti alla tónana í hörpu minni í þessari nýjustu bók. Svo er ég líka með þriðju persónu frásögn sem ég hef sjaldnast verið með og þá skapast meira pláss fyrir persónusköpun auk þess sem ég get farið yfir víðara svið,“ segir Hallgrímur og lýsir notkun sinni á tungumálinu sem „skringi-elementi“ í stílnum. „Þetta er tilhneiging til að vera öðruvísi og segja hlutina ekki eins og þeir hafa verið sagðir áður heldur finna upp nýjar líkingar og snúa upp á orðin og tungumálið til að fá lesendur til að sjá hlutina í nýju ljósi.“
Að sögn Hallgríms er Sextíu kíló af sólskini fyrst og fremst bók fyrir landann. „Mig langaði nú fyrst og fremst til að skrifa bók um og fyrir Íslendinga. Ég vildi fara djúpt í þjóðareðlið, vita hvaðan við komum og af hverju við erum eins og við erum.“
Inntur eftir því hvort hann sé farinn að leggja drög að næstu bók svarar Hallgrímur því játandi. „Sem stendur er ég að klára að þýða Tartuffe eða Loddarann eftir Molière fyrir Þjóðleikhúsið. Það er búið að vera svakalegt verk, enda allt rímað og stuðlað. Þetta er eins og að yrkja hálfan Gunnarshólma á dag og því ekkert áhlaupaverk. Síðan ætla ég að fara að mála aðeins, stefni á sýningu í Tveimur hröfnum í vor. Ætli ég taki svo ekki sumarið í að melta næstu skref og skoða hvort ég skrifi framhald af þessari bók,“ segir Hallgrímur og bendir á að söguhetjan Gestur Eilífsson sé ekki nema 15 ára þegar bókinni ljúki og síldin aðeins nýkomin til landsins.
„Upphaflega var planið að skrifa um síldartímann á Siglufirði, en síðan uppgötvaði ég hákarlatímann og var komin með 300 síður án þess að síldin væri komin,“ segir Hallgrímur og bendir á að undir lok bókar sé síldin aðeins búin að vera í eitt sumar á Segulfirði, sögusviði bókarinnar. „Tíminn þegar Norðmenn voru hér við síldveiðar var mjög ævintýralegur tími. Oft voru þúsundir manna í landlegum en aðeins einn lögregluþjónn í bænum. Þarna ríkti því villtavestursástand. Ætli ég reyni ekki að fara eitthvað inn í þennan tíma í næstu bók, fram yfir fyrra stríð kannski og fylgja Gesti inn í fullorðinsaldurinn,“ segir Hallgrímur og tekur fram að hann reikni með að líða muni tvö til þrjú ár áður en framhaldið kemur út.
„Það er æðislega skemmtilegt að hljóta þessi verðlaun. Maður stækkar um nokkra sentimetra,“ segir Sigrún Eldjárn, höfundur skáldsögunnar Silfurlykillinn. Hún hefur tvisvar áður verið tilnefnd, 2013 fyrir skáldsöguna Strokubörnin á Skuggaskeri og árið 2014 fyrir ljóðabókina Fuglaþrugl og naflakrafl þar sem hún myndskreytti texta bróður síns, Þórarins Eldjárns.
Spurð hvort viðurkenningin hafi komið henni á óvart bendir Sigrún á að allar tilnefndu bækurnar hafi verið góðar og því ekki á vísan á róa. Spurð hvort Silfurlykillinn sé hennar besta bók til þessar svarar Sigrún: „Ég get ekki dæmt um það. Ég held að þetta sé ágætisbók, en mér hefur fundist margar af fyrri bókum mínum mjög góðar líka – svo ég sé svolítið roggin,“ segir Sigrún sem sendi frá sér sína fyrstu bók 1980.
Sigrún liggur ekki á þeirri skoðun sinni að barnabækur séu langmikilvægasta bókmenntagreinin. „Því ef krakkanir venjast ekki á að lesa þá er enginn til að lesa hinar bækurnar í framtíðinni. Þannig að mér finnst það mjög mikilvægt starf að búa til bækur fyrir krakka og skemmtilegt þar að auki,“ segir Sigrún og vísar því á bug að hún finni fyrir meiri pressu fyrir vikið. „Ég vil auðvitað bara skrifa góðar bækur, þannig að ég geri alltaf mitt allra besta.“
Að sögn Sigrúnar eru nokkur ár síðan hugmyndin að Silfurlyklinum kviknaði. „Ég hef unnið að bókinni meðfram öðru, en sagan hefur orðið sífellt brýnni með tímanum miðað við það sem er að gerast í heiminum í dag,“ segir Sigrún og vísar þar til þróunar loftslagsmála, en Silfurlykillinn gerist í framtíðinni þegar mannfólkið er búið að eyðileggja heiminn og öll nútímaþægindi og -tækni eru horfin.
Sigrún segist sjá fyrir sér að Silfurlykillinn verði fyrsta bókin í nýjum þríleik. „Þegar ég byrjaði á þessu var ég að hugsa um að gera bara þessa einu bók, en núna reikna ég með að á henni verði framhald. Það er ágætt að leyfa heimi verksins og persónunum að lifa svolítið lengur,“ segir Sigrún og reiknar með að næsta bók komi út fyrir næstu jól. „Enda má helst ekki líða of langt milli framhaldsbóka fyrir börn,“ segir Sigrún og tekur fram að reyndar sé ekki mikil hætta á því að lesendur vaxi upp úr bókinni þar sem góðar barna- og ungmennabækur eigi erindi við alla aldurshópa.
„Við erum auðvitað bæði stolt og ánægð yfir þessu. Og þakklát fyrir þann heiður sem verkinu er sýndur,“ segir Þóra Ellen Þórhallsdóttir sem ásamt Herði Kristinssyni og Jóni Baldri Hlíðberg er höfundur Flóru Íslands. Blómplöntur og byrkningar. Jón Baldur átti myndirnar í Íslensk spendýr í ritstjórn Páls Hersteinssonar sem tilnefnd var 2004 og var einnig tilnefndur ásamt Ævari Petersen 1998 fyrir Íslenskir fuglar.
„Okkur þótti mjög vænt um tilnefninguna á sínum tíma, því tilnefningar eru ekki síður mikils virði,“ segir Þóra og tekur fram að Flóra Íslands hafi verið í mjög góðum hópi. „Við vonum það öll þrjú að verðlaunin verði til að glæða áhuga fólks á lífríki Íslands almennt og flórunni og plöntunum sérstaklega. Í ljósi þess að yfirvofandi eru gríðarlegar breytingar á lífríki jarðar með hlýnandi loftslagi og allri röskuninni sem því fylgir samtímis því sem maðurinn er að umturna æ stærri svæðum á yfirborði jarðar þannig að fjölbreyttum villtum náttúrulegum vistkerfum er skipt út fyrir tiltölulega einhæf manngerð vistkerfi þá er verðmætt að vekja athygli á gildi náttúrulegs lífríkis og líffræðilegri fjölbreytni.
Ég held að það gefi fólki, sem á annað borð fer út í gönguferðir, gengur á fjöll eða stundar náttúruskoðun, mjög mikið að veita plöntunum athygli, læra að þekkja þær og hafa ánægju af því að skoða þær. Það er viðbótarvídd í upplifuninni af útivist. Þetta er einnig liður í því að vera í takt við náttúruna og hluti af henni.“
Aðspurð segir Þóra ekki alveg einfalt að tímasetja upphafið að vinnslu bókarinnar. „Vinna Harðar við flóruna nær langt aftur fyrir þessa nýju bók, enda eru rúm þrjátíu ár síðan hann sendi frá sér íslenska plöntuhandbók með undirtitilinn blómplöntur og byrkningar,“ segir Þóra og reiknar með að verðlaunabók hópsins hafi verið í vinnslu í rúman áratug.
„Þetta var afskaplega ánægjuleg samvinna,“ segir Þóra og bendir á að það sé regla fremur en undantekning að tíminn sem vinnsla stórra verka taki sé vanmetinn. „Stundum koma svona bækur út áratug seinna en upphaflega stóð til. Þegar leið á vinnuna hjá okkur tókst að halda tímaáætluninni nokkuð vel,“ segir Þóra og rifjar upp að ávallt hafi verið stefnt að því að Flóra Íslands kæmi út á árinu 2018, sem stóðst.
Ítarlegri umfjöllun um Íslensku bókmenntaverðlaunin 2018 má nálgast í Morgunblaðinu á morgun, miðvikudag, þar sem lengri viðtöl við alla verðlaunahafa er að finna.