„Við óttuðumst miklu, miklu verra“

Farþegum um Keflavíkurflugvöll mun fækka á milli ára í fyrsta …
Farþegum um Keflavíkurflugvöll mun fækka á milli ára í fyrsta sinn frá árinu 2009, samkvæmt spá Isavia. mbl.is/Eggert

„Það kom okkur svolítið á óvart hérna innandyra að þetta var mun betra en við óttuðumst. Við óttuðumst miklu, miklu verra,“ segir Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia um farþegaspá Keflavíkurflugvallar 2019, sem kynnt var á fjölmennum fundi á Hilton Nordica í morgun.

Í spánni er gert ráð fyrir því að heildarfjöldi farþega sem fari um Keflavíkurflugvöll dragist saman um 8,7% á milli ára, fjöldinn verði 8,95 milljónir á þessu ári samanborið við 9,8 milljónir árið 2018.

Skiptifarþegum fækkar mest, eða um 18,7% samkvæmt spánni, en komum og brottförum farþega sem eru að fljúga til og frá Íslandi fækkar einungis um rúm 2%.

Fjölgun farþega yfir sumarið

Það er þó ekki samdráttur í öllum mánuðum, heldur er gert ráð fyrir að komu- og brottfararfarþegum fjölgi yfir sumarmánuðina frá því sem var í fyrra.

Í júní verða þeir um 4% fleiri en á sama tíma í fyrra, þeim fjölgar um 5,7% í júlí og að lokum um 7,2% í ágúst, samkvæmt spánni, sem gerir einnig ráð fyrir að komu- og brottfararfarþegum fjölgi í nóvember um 1,7% og í desember um 4,6%.

„Eins og við fáum tölur um frá Icelandair og WOW air, sem eru að nota okkur sem skiptiflugvöll, þá er mesta minnkunin þar, en aftur á móti mun „til og frá“ farþegum ekki fækka jafn mikið,“ segir Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Keflavíkurflugvallar, sem kynnti farþegaspána.

Mestur er samdrátturinn í fjölda skiptifarþega, en fjöldi Íslendinga og …
Mestur er samdrátturinn í fjölda skiptifarþega, en fjöldi Íslendinga og erlendra ferðamanna sem fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli dregst einungis lítillega saman, samkvæmt spánni. Tafla/Isavia

Hlynur bætir við í samtali við blaðamann að það sé „mjög gott“ fyrir ferðamennsku á Íslandi að ekki sé gert ráð fyrir meiri fækkun í spánni, en samkvæmt útreikningum Isavia, sem unnir eru í samstarfi við flugfélögin sem fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli, fækkar erlendum ferðamönnum sem hingað koma einungis um 55 þúsund á milli ára.

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia.
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia. mbl.is/Kristinn Magnússon

Björn Óli segir að þær flugleiðir sem hafa verið aflagðar undanfarið hafi verið flugleiðir þar sem skiptifarþegar á leið yfir Atlantshafið voru stór hluti farþega og að það sjáist í spánni, en eins og greint hefur verið frá hefur áfangastöðum WOW air í Norður-Ameríku verið fækkað úr tólf í sex.

„Það er betri hagnaður af því að fljúga farþega til og frá Íslandi heldur en skiptifarþega. Það er virkilega traustur markaður og menn verða að hafa þann markað. Flugfélögin virðast hafa tekið ákvörðun um að styrkja þann markað, passa sig á að honum verði ekki umbreytt, en svo má ekki gleyma að þó að við höfum séð niðursveiflu hjá WOW air þá erum við að sjá uppsveiflu hjá Icelandair,“ segir Björn Óli.

Hafa trú á endurskipulagningu WOW air

Vegna óvissu á markaði, sérstaklega hvað varðar WOW air, hefur Isavia ekki treyst sér til að kynna farþegaspá ársins fyrr en í dag, en undanfarin ár hafa fundir sem þessir verið haldnir í lok nóvember. Hlynur segir að enn sé óvissa í flugheiminum, en staðan hafi þó skýrst undanfarið.

Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Keflavíkurflugvallar.
Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Keflavíkurflugvallar. Ljósmynd/Isavia

„Við höfum trú á að WOW air nái að endurskipuleggja sig og endurskilgreina sig sem flugfélag og að Icelandair, sem hefur líka verið að fara í gegnum miklar breytingar, nái tökum á því sem þeir ætla að gera til framtíðar,“ segir Hlynur.

Aftur vöxtur frá og með árinu 2020

Stöðug aukning hefur verið á fjölda farþega um Keflavíkurflugvöll undanfarinn áratug og vöxturinn verið afar hraður. Nú er séð fram á fækkun í fyrsta sinn síðan 2009, en Hlynur telur að ekki sé útlit fyrir að þessi fækkun muni halda áfram næstu ár.

„Við hugsum að þetta muni snúast við og að frá og með 2020 munum við sjá aftur aukningu,“ segir Hlynur en bætir við að sú aukning verði aldrei í þeim mæli sem verið hefur undanfarin 5-6 ár.

Stöðug aukning hefur verið á fjölda farþega um Keflavíkurflugvöll undanfarinn …
Stöðug aukning hefur verið á fjölda farþega um Keflavíkurflugvöll undanfarinn áratug og vöxturinn verið afar hraður. mbl.is/Eggert

„Það er ekkert eðlilegt að vera með 20-30% aukningu á hverju einasta ári á flugvelli, það er ekki hollt fyrir okkur og ekki heldur fyrir íslenska ferðaiðnaðinn,“ segir Hlynur, en Isavia horfir til þess að árleg aukning í farþegafjölda gæti orðið á bilinu 3-6% til framtíðar litið, sem myndi þýða að við myndum sjá heildarfarþegafjöldann aukast um hálfa milljón farþega að meðaltali næstu tíu ár.

Eins og sjá má á grafinu hér að neðan er fjöldi farþega enn langt, langt, fyrir ofan þær áætlanir sem voru upphaflega gerðar í tengslum við þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar, „masterplanið“ svokallaða.

Vöxtur undanfarinna ára hefur verið langt umfram það sem gert …
Vöxtur undanfarinna ára hefur verið langt umfram það sem gert var ráð fyrir. Graf/Isavia

Hlynur vék að uppbyggingarþörf á Keflavíkurflugvelli í erindi sínu, en í máli hans kom fram að til þess að betur væri hægt að þjónusta farþegafjöldann sem nú þegar fari í gegnum Keflavíkurflugvöll, þurfi að bæta um 10 þúsund fermetrum við flugstöðina og er fyrirhuguðum framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli ætlað að mæta því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert