Talsverðar deilur urðu á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í morgun þar sem nokkrir þingmenn voru ósáttir við að Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, hafi ákveðið að snúa aftur í embætti formanns nefndarinnar og stýra fundinum, en á honum var samþykkt nánast óbreytt samgönguáætlun.
„Það var hér heilmikil ósætti og uppákoma,“ segir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um fundinn.
Lögð var fram tillaga þess efnis á fundi nefndarinnar að Bergþór viki úr sæti formanns, en henni var vísað frá.
„Þetta er bara ekki mál sem leysist á vettvangi nefndarinnar. Þetta þarf að leysa á vettvangi þingflokksformanna. Þetta byggir á samkomulagi þingflokka og það er ekki nefndarinnar að taka á því máli,“ útskýrir Jón. „Meirihlutinn telur að þetta sé mál sem þarf að leysa á vettvangi þingflokksformanna minnihlutaflokkanna.“
Hann segir fundinn hafa gengið vel að lokum og á fundinum hafi verið samþykkt tímamótaákvörðun. „Það var samþykkt hér að fara í stórfelldar vegaframkvæmdir á grundvelli veggjalda.“