Nemar undir álagi bjargi sér með lyfjum

Háskólinn í Reykjavík.
Háskólinn í Reykjavík. mbl.is/Eggert

„Þetta virðist tengjast miklu álagi sem háskólanemar eru undir,“ segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítalanum og MBA-nemi við Háskólann í Reykjavík, sem fjallar um lyfjamisnotkun á málstofu um líðan háskólanema á Íslandi í HR í dag.

Í erindi sínu fer Jón Magnús meðal annars yfir það hvers vegna misnotkun er svona mikil og hvort lyfin virki í raun og veru í þeim tilgangi sem fólk tekur þau.

Jón Magnús segir að misnotkunin falli í tvo flokka, annars vegar lyfjanotkun til þess að auka námsárangur, og hins vegar til þess að sporna við álagseinkennum: verkjum, svefntruflunum og kvíða.

Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga Landspítalans.
Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga Landspítalans. mbl.is/Sigurður Bogi

„Mjög margir háskólanemar vinna mikið með námi til þess að eiga í sig og á. Fólk er undir miklu álagi yfir langan tíma og getur ekki sinnt námi sínu sem skyldi. Það þýðir að álag verður enn meira á prófatímabili og fólk fer að taka þessi lyf, sem aðrir hafa fengið ávísað, við álagseinkennum, og svo reynir það að bjarga sér með því að taka lyf sem eiga að bæta námsárangur,“ segir Jón Magnús.

Auk þess segir hann lifnaðarstaðal á Íslandi mjög háan og sem þjóðfélag þurfum við að skapa aðstæður þar sem álag er minna.

Algengustu lyfin sem tekin eru til þess að auka námsárangur segir Jón Magnús vera rítalín og concerta, sem séu lyf við ofvirkni og athyglisbresti.

„Sértu með ofvirkni og athyglisbrest eru þetta mjög gagnleg lyf til þess að hægt sé að ná fullum árangri í námi, en það er ekki þar með sagt að þau auki árangur þeirra sem ekki eru með ofvirkni og athyglisbrest. Þau geta jafnvel haft öfug áhrif og ýtt enn frekar undir svefntruflanir og kvíða, sem fólk taki síðan önnur lyf við,“ segir Jón Magnús, þannig myndist eins konar vítahringur.

Málþingið fer fram í stofu M209 í HR og stendur yfir frá klukkan 12 til 13:30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert