Netöryggisráð, sem í sitja fulltrúar nokkurra ráðuneyta og opinberra stofnana, þar á meðal fulltrúi frá embætti ríkislögreglustjóra, hefur tekið málefni kínverska fjarskiptarisans Huawei til umræðu.
Þetta er gert í kjölfar þess að í löndum víða um heim hefur uppsetning 5G búnaðar fyrirtækisins verið ýmist bönnuð, eða frestað, vegna ótta um njósnir kínverskra yfirvalda, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
„Málið hefur verið kynnt og tekið til umræðu innan Netöryggisráðs og fyrirséð er að áfram verði fylgst með málinu og það rætt. Trúnaður er um þá umræðu [...],“ segir í skriflegu svari Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.