Landganga hvítabjarna var algeng hér á landi fyrr á öldum og margar sagnir til af þeim og viðureignum mannfólksins við þessa stóru skepnu vetrarins. Þórir Haraldsson, líffræðikennari við Menntaskólann á Akureyri, safnaði í áratugi sögum af hvítabjörnum, sönnum og skálduðum, og nú hefur Rósa dóttir hans að honum gengnum tekið hans mikla safn heimilda saman í bók.
Bókin, sem heitir Hvítabirnir á Íslandi, var tilnefnd til Hagþenkisverðlauna nýverið í flokki fræðirita. Rósa er doktor í mannfræði og vísindafélagi við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri.
„Vissulega var mikil vinna að slá inn handskrifað handrit hans, en rithönd pabba var skýr og falleg svo það var auðvelt að lesa hana. Þetta var heilmikil handavinna því ég þurfti að leita uppi margar heimildir pabba og finna þær nákvæmar. En það var mikil nánd í því fyrir mig að vinna með handskrifuð plöggin hans eftir að hann var fallinn frá. Það gerði mér gott,“ segir Rósa og bætir við að vinir og kunningjar pabba hennar hafi verið duglegir að gauka að honum sögum. „Einn vinur hans fékk til dæmis skriðusögur frá pabba í skiptum fyrir hvítabjarnarsögur. Pabbi safnaði öllu að sér, enda var hann kennari áður en internetið kom til sögunnar. Allt sem hann las og hélt að hann gæti mögulega notað seinna skráði hann á blað og setti í spjaldskrá. Þetta var hans „leitarvefur“ og hvítabirnirnir hlóðu af einhverjum ástæðum meira utan á sig en annað í þessari söfnun hans.“
Rósa segir að henni hafi komið á óvart hversu tíðar komur hvítabjarna hingað til lands voru.
„Þegar ég var að alast upp voru landgöngur mjög fátíðar; 1974 kom bjarndýr í Fljótavík, 1975 var bjarndýr á sundi skotið við Grímsey og árin þar á eftir sást til bjarndýra á ísjaðrinum norður af landinu. 1988 urðu menn varir við bjarndýr í fjörunni í Haganesvík en svo komu engir birnir hingað á land í 30 ár þar til tveir slíkir komu í Skagafjörð árið 2008. Raunveruleikinn var allt annar á nítjándu öld, til dæmis komu 63 bjarndýr á land frostaveturinn mikla árið 1881, gríðarlegt frost var hér á landi það ár. Til samanburðar komu „aðeins“ 27 hvítabirnir hér á land „hinn“ frostaveturinn mikla sem flestir kannast við, árið 1918. Þessar algengu komur slíkra hættulegra dýra, og fyrir vikið hinn mikli ótti við hvítabirni, sýna okkur hversu raunveruleiki fólks var víðsfjarri þeim sem nútíma Íslendingar tengja við hvítabirni.“
Rósa nálgaðist bókarskrifin að hluta til út frá sínu fagi, mannfræðinni, enda hefur hún meiri áhuga á fólkinu sem mætti hvítabjörnum og tókst á við þá heldur en dýrunum sjálfum. Hún segir að það hafi komið henni mest á óvart hversu margar kvenhetjur komu þar við sögu.
„Þær eru mun fleiri en ég bjóst við, enda er sagan af komu hvítabjarna og viðureigna við þá oft afar karllæg, því eins og svo oft skrifa karlar niður þessar sögur eftir öðrum körlum. Það var ánægjulegt að finna þó nokkuð marga kvenskörunga í þessum frásögnum, þannig að í raun er að finna heilmikinn femínisma í bókinni. Konur sem tókust á við hvítabirni náðu ýmist að fella björninn eða féllu fyrir honum. Í einni af uppáhaldssögunum mínum í þessari bók er aðalhetjan ung stúlka, Jóhanna Aðalmundardóttir, sem bjó á Eldjárnsstöðum á Langanesi veturinn kalda 1918 þegar glorsoltinn hvítabjörn kom þar og fór alla leið inn í bæ. Þetta er rosaleg saga þar sem Jóhanna vinnur hetjudáð, hún tekur áhættuna og hleypur út úr bænum „þar sem hún gat búist við að ganga í kjaftinn á dýrinu“ til að sækja hjálp til manna í fjárhúsunum. En karlmaðurinn sem var inni með henni þorði ekki og ekki vildi hún senda gamalmennin eftir hjálp. Þetta er í fyrsta skipti sem frásögn er skrifuð strax daginn eftir að atburður um hvítabjörn á sér stað. Það sem gerðist var ritað nákvæmlega niður eftir heimafólki og það fékk að lesa yfir, svo allt væri rétt. Þetta er fyrir vikið mjög dýrmæt heimild,“ segir Rósa og bætir við að konur komi einnig við sögu í þjóðsögum af viðureignum við hvítabirni.
„Ég birti til dæmis í bókinni skemmtilegt söguljóð eftir Böðvar Guðmundsson frá 1966, en þar segir frá hvítabirni sem drepur og étur bónda nokkurn en giftist að því loknu konu hans og var samlíf þeirra mjög gott, bjarnarins og konunnar. Þjóðtrúin og þjóðsögurnar geyma skemmtilegar hugmyndir um hvítabirni, til dæmis að þeir ráðist ekki á barnshafandi konur og ráðist ekki á menn sem heita Björn. Ef einhver drepur bjarndýr sem ekki hefur gert neinum mein, þá hefnist honum fyrir. Það eru til raunverulegar sögur sem styðja þessi dæmi, eða hafa orðið til þess að fólk fór að trúa þessu. Nonna-bækurnar áttu líka stóran sess í hugum fólks og hugmyndum þess um hvítabirni, margir sem lásu þær áttu andvökunætur. Þetta var raunveruleg ógn, enda eru hvítabirnir stórhættulegar skepnur.“
Rósa hefur búið undanfarinn áratug í Belgíu með eiginmanni og tveimur sonum. „Ég flutti á sínum tíma til Parísar, tók ár í frönsku fyrir útlendinga í Sorbonne, til að ná tökum á tungumálinu og fór svo í doktorsnám þar í mannfræði. Ætlunin var að flytja aftur heim til Akureyrar að námi loknu, því ég er erki-Akureyringur. Þegar ég sé fallegar myndir frá Akureyri byrjar hjartað að slá. En ástin fór með mig á nýjar slóðir, ég kynntist manninum mínum í skólanum í París þar sem hann lagði stund á hagfræði. Og þegar honum bauðst starf hér í Brussel fylgdi ég honum þangað. En ég gerði mér ekki grein fyrir hvað fjöllin, sjórinn og norðurljósin skiptu mig miklu máli fyrir en ég flutti hingað út og er án þessara fyrirbæra sem voru hversdagsleg og sjálfsögð.“
Setbergsannáll segir að hafís hafi legið fyrir öllu Norðurlandi og hafi töluvert af sel komið með honum og Norðlendingar tekið fegins hendi þeirri búbót. Með ísnum komu einnig bjarndýr á land.
Ekki er neitt skrifað um skaða, sem þessi bjarndýr hafi unnið, enda líklegt að þau hafi aðallega veitt seli ef nóg var af þeim. Eitt þessara bjarndýra er hins vegar sagt hafa haft aðsetur sitt hjá ekkju nokkurri. Það var kvendýr. Það lagði ungum sínum undir rúmi einu í bænum. Var það meinlaust þar öllum mönnum.
Konan var barnmörg. Bannaði hún þeim að fást neitt við dýrsungana en hún gjörði dýrinu til góða og þessi skepna launaði henni aftur góðu í því að dýrið fór til sjávar og bar heim til hennar húsa fiskabrot og annað er rak af sjó og ætt var. Var þessari konu það mikill styrkur til matfanga fyrir sig og börn sín því það sem dýrið neytti ekki tók hún og sauð.
Skrafað var að dýrið hefði skipt í tvo staði því það heim bar. Dvaldi það hjá þessari konu þar til ungar þess voru orðnir sjálfbjarga og síðan fór það sinn veg með þá í burt þaðan en að þessum aðdrætti var mælt að konan hefði lengi búið.