„Nei, þetta kom alls ekki á óvart. Þetta helgast að vissu leyti af minna framboði í flugsamgöngum, sem virðist vera staðreynd fyrir þetta ár. Það er bara ekki eins mikil tíðni af samgöngum á milli Íslands og annarra landa og sérstaklega Bandaríkjanna náttúrlega,“ segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við mbl.is, spurð hvort farþegaspá Isavia um Keflavíkurflugvöll, sem kynnt var í gær, hafi komið henni á óvart.
Isavia gerir ráð fyrir að erlendum ferðamönnum sem komi hingað til lands fækki um 56 þúsund frá fyrra ári og Bjarnheiður segir í samtali við blaðamann að hún hefði sjálf skotið á eitthvað svipað.
„Það eru hins vegar margir sem halda að þetta sé vanáætlað, margir innan greinarinnar líka,“ segir Bjarnheiður, og bætir við að heilt yfir sé óvissuástand í íslenskri ferðaþjónustu.
„Það eru yfirvofandi kjarasamningar og gengi krónunnar er að sveiflast enn þá og auðvitað er óvissa enn þá varðandi WOW,“ segir Bjarnheiður, en hún segir að samkeppnishæfni Íslands sem ferðamannastaðar hafi líka farið minnkandi.
„Verðið er einfaldlega orðið of hátt á mörgum mörkuðum og við erum komin að vissum þolmörkum í verðlagningu á íslenskri ferðaþjónustu. Það hefur bara bein áhrif á eftirspurnina,“ segir hún og bætir við að þessu valdi hár innlendur kostnaður og „allt of sterkt“ gengi íslensku krónunnar.
Bjarnheiður segir að mikil gerjun sé í ferðaþjónustunni almennt, en hún sagði í upphafi síðasta sumars að hún teldi líkur á því að „grisjun“ væri fram undan innan ferðaþjónustunnar og að aðilar sem ekki hafi burði til að takast á við minnkandi vöxt ferðamannastraumsins verði fyrstir að víkja. Það hefur að einhverju leyti komið á daginn.
„Það er mikið um hagræðingaraðgerðir og sameiningar og uppkaup, þannig að það er ýmislegt í gerjun, við getum sagt það. Sem er kannski ekkert skrítið náttúrulega, því eftir þennan svakalega uppgang sem varð þá voru stofnuð rosalega mörg fyrirtæki á stuttum tíma,“ segir Bjarnheiður, sem telur „ofboðslega erfitt að spá um hvernig næstu mánuðir verða“ í ferðaþjónustu.
„Það eru svo margir þættir í rekstrarumhverfinu sem eru í einhverju limbói akkúrat núna.“