Ómar Friðriksson
Þrátt fyrir mikil fundahöld í kjaraviðræðum Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins eru viðsemjendurnir að takmörkuðu leyti farnir að takast á um launalið væntanlegra samninga.
Nú eru fjórar vikur liðnar frá því að kjarasamningar á almenna vinnumarkaðinum losnuðu. Í dag er boðað til sjötta sáttafundarins í kjaradeilu SA og verkalýðsfélaganna fjögurra sem vísuðu deilunni til Ríkissáttasemjara.
Í gærmorgun hittust samninganefndir SA og SGS fyrir hönd aðildarfélaganna sem ekki hafa vísað kjaradeilunni til sáttameðferðar. Einnig voru haldnir fundir í undirhópum og nefndum um afmörkuð mál, samkvæmt upplýsingum Björns Snæbjörnssonar, formanns SGS.
„Það þokast allt. Það er enginn gassagangur en það er gangur. Við höldum áfram að ræða um hin ýmsu málefni í undirhópum,“ segir Björn í frétt um samningamálin í Morgunblaðinu í dag. Hann segir frekar rólegt yfir þessu en samt miði viðræðum áfram.