Gert er ráð fyrir því að nauðsynlegar undirbúningsaðgerðir vegna uppbyggingar borgarlínu hefjist strax í ár og á næsta ári. Þetta kom fram í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar samgönguráðherra í sérstakri umræðu um almenningssamgöngur og borgarlínu á þingi.
Þetta væri samkvæmt niðurstöðu samráðshóps Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins varðandi uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.
Hann sagði að í framhaldinu væri gert ráð fyrir því að verklegar framkvæmdir við fyrsta áfanga hefjist að fullu 2021. „Þannig eru í samgönguáætlun áætlaðar 300 milljónir króna á árinu 2019 og 500 milljónir króna á árinu 2020 til þess að standa við samkomulagið,“ sagði ráðherra.
„Ríkið hefur með virkum hætti komið að undirbúningi þess að þær hugmyndir sem lagðar hafa verið fram varðandi borgarlínuna, hágæðaalmenningssamgöngur, verði að veruleika, bæði í gegnum umræddan samráðshóp sem og þátttöku í stýrihópi um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Sigurður Ingi. Næstu skref felist í því að semja við SSH um nánari útfærslu á aðkomu sveitarfélaga og ríkisins.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG og málshefjandi umræðunnar sagði að samkvæmt umferðaspá myndi umferð á höfuðborgarsvæðinu aukast um 40% til ársins 2033 ef einungis verði ráðist í stofnvegaframkvæmdir. „Það er staðfesting á því — og allir eru orðnir sammála um það — að fara þurfi að fara í þessar framkvæmdir samhliða, stofnvegaframkvæmdirnar og almenningssamgöngurnar,“ sagði Sigurður Ingi.
Kolbeinn sagði að til að Ísland næði markmiðum sínum í loftslagsmálum, að verða kolefnishlutlaust árið 2040, yrðum við að breyta ferðavenjum okkar. „Það er morgunljóst að við náum trauðla slíkum markmiðum ef okkur ekki tekst að breyta ferðavenjum, draga úr því hvernig við ferðumst um á einkabílum, því að á þessum skamma tíma getum við varla búist við því að orkuskipti verði orðin að fullu,“ sagði Kolbeinn og bætti við að öll rök hnígi að því að við eigum að ráðast í alvöru uppbyggingu borgarlínu.
Sigurður Ingi sagði að það væri ljóst að áðurnefndum skuldbindingum yrði ekki náð nema dregið væri úr umferð bifreið og að fleiri nýttu sér almenningssamgöngur, hjólastíga og göngustíga.
„Byggja þarf upp gæðaalmenningssamgöngur sem eru raunhæfur valkostur við einkabílinn. Markmiðið með borgarlínu er að bjóða fram samkeppnishæfan valkost fyrir ferðir einstaklinga innan höfuðborgarsvæðisins og stuðla þannig að minni aukningu bílaumferðar, setja aukið framlag til stofnstígakerfis hjólreiða og göngu og efla samgöngur innan höfuðborgarsvæðisins almennt,“ sagði Sigurður Ingi.