„Það er kannski það sem er nýtt í þessu, við erum að upplýsa almenning fyrr,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna, um aukinn viðbúnað Veitna og áskorun fyrirtækisins til íbúa um að fara vel með heita vatnið.
Kalt hefur verið á höfuðborgarsvæðinu og Veitur hafa af þeim sökum hvatt fólk til að fara sparlega með heita vatnið. Ef til vill þarf að takmarka afhendingu vatns þegar kólnar um helgina og þá gæti þurft að loka sundlaugum.
Trausti Jónsson veðurfræðingur skrifaði á bloggsíðu sína að honum kæmi á óvart að Veitum sé brugðið vegna stöðunnar, vegna þess að þessir kuldar geti ekki talist miklir.
Ólöf segir að Veitur hafi fylgst vel með og fyrirtækið sé vant því að takast á við kuldaköst. Nýjungin sé að almenningur sé nú upplýstari um stöðu mála en áður.
„Notkun eykst hratt þessi misserin en þar spilar meðal annars inn í fjöldi nýrra íbúa og margir ferðamenn,“ segir Ólöf. Hún segir að fyrirtækið mælist áfram til þess að almenningur fylgist með notkun heima hjá sér og passi að nýta varmann vel.
„Við búumst alls ekki við því að komi til neinna takmarkana á afhendingu til húshitunar. Það sem við erum að tala um núna er að kannski þurfi að takmarka afhendingu á vatni til stærstu notenda eins og sundlauga. Húshitun er alltaf í forgangi og hún er ekki undir eins og staðan er núna. Það þarf ansi mikið til þess. Við erum engan veginn nálægt þeim stað núna.“