Alveg til í að kæla í kuldanum

Kaldi potturinn í Lágafellslaug er opinn í frostinu og gestir …
Kaldi potturinn í Lágafellslaug er opinn í frostinu og gestir láta ekki klakann sem safnast umhverfis hann koma í veg fyrir að þeir skelli sér ofan í. Mynd úr safni. Ljósmynd/Facebook

Kaldir pottar hafa notið mikilla vinsælda undanfarin misseri og þeim fjölgar stöðugt sem kunna að meta að dýfa sér í kalt vatni á milli þess sem þeir verma sig aftur í heitu pottunum. Hvernig er þó staðan í frostinu sem búið er að vera undanfarna daga, eru höfuðborgarbúar jafn ákafir í að kæla í kuldanum?

Kaldi potturinn í Sundlaug Kópavogs hefur verið lokaður sl. þrjá daga út af frosti og kulda. „Það er er kvartað heilmikið yfir því, þannig að fólk er alveg að fara í hann þó að það sé skítkalt úti,“ segir Guðný Anna Bragadóttir hjá Sundlaug Kópavogs.

Í Laugardalslaug er kalda pottinum lokað þegar frostið nær -3 til -4 gráðum. Ástæðan er þó ekki sú að kalda vatnið freisti ekki, heldur verður stígurinn að honum hættulegur við þessar aðstæður.

„Stígurinn sem liggur að honum er ekki upphitaður þannig að hann verður ein klakabrynja og þá er erfitt fyrir fólk að fóta sig,“ segir Bjarni Kjartansson, rekstrarstjóri Laugardalslaugar. Hann kannast ekki við að kvartað sé þegar pottinum er lokað. „Það vita þetta allir sem sækja þá hérna hjá okkur og gera sér grein fyrir því að við erum bara að passa upp á meiðsli.“

Í Lágafellslaug í Mosfellsbæ er kaldi potturinn enn opinn. „Það er aðeins minni notkun en undir eðlilegum kringumstæðum,“ segir Sigurður Guðmundsson, forstöðumaður Lágafellslaugar.

„Við erum í vandræðum með klaka í kringum kalda pottinn, en fólk fer samt í hann,“ bætir hann við og segir köldu pottana njóta mikilla vinsælda. „ Við erum að fara að setja upp stærri kaldan pott hér í Lágafellslaug það er svo mikil aðsókn í þetta. Þetta er líka allra meina bót,“ segir Sigurður sem sjálfur stundar það að skella sér í kalda pottinn.  

Sparar helling af heitu vatni

Búið er að loka sundlaugum á Hellu, Laugaland og Hvolsvelli vegna frostsins og í Þorlákshöfn hefur hluta laugar og pottum verið lokað vegna kuldanna.

Bjarni hefur ekki heyrt að grípa þurfi til lokana í sundlaugum í borginni. „Það getur þó verið að menn muni loka einhverjum pottum, til að mynda hér þar sem þeir eru margir,“ segir hann. „Það sparar helling af heitu vatni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert