Fannst látinn í Vaðlaheiðargöngum

Frá Vaðlaheiðargöngum.
Frá Vaðlaheiðargöngum.

Karlmaður á sjötugsaldri fannst látinn í Vaðlaheiðargöngum í gær. Maðurinn lést skyndilega og ekki er talið að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti.

Þetta segir Bergur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn yfir rannsóknardeild hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra.

Maðurinn, sem var 62 ára, starfaði sem málari og var að vinna í svokölluðu tæknirými í göngunum þegar hann féll frá. Aðspurður segir Bergur ekkert benda til þess að hann hefði orðið fyrir eitrun eða einhverju slíku sem tengdist vinnunni.

Ekki var talin þörf á að kalla í Vinnueftirlitið.

Lögreglunni barst tilkynning um að maðurinn, sem er íslenskur ríkisborgari, hefði fundist í austasta hluta ganganna um hálffjögurleytið í gær. Göngunum var í framhaldinu lokað í aðra áttina í um tíu mínútur til þess að viðbragðsaðilar hefðu aðgengi að svæðinu.

Ekki er hægt að segja til um hvernig maðurinn lést fyrr en að lokinni krufningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert