Ýmis tormerki eru á ræktun hárra pálma af suðrænum uppruna í glerhólkum í Vogabyggð, að mati Guðríðar Helgadóttur, garðyrkjufræðings við Garðyrkjuskóla LbhÍ á Reykjum. Hávaxnir pálmar séu hitakærir og það geti verið snúið að halda hita- og rakastigi réttu inni í svona litlu rými allt árið, við íslenskar veðuraðstæður.
Guðríður segir að samkvæmt myndum af verðlaunatillögunni á útilistaverki í Vogabyggð sýnist sér að miðað sé við kókos- eða döðlupálma í turnlaga gróðurhúsum eða hólkum. Tré með háum stofni og laufblöðum efst á stofninum, sem verði 5-7 metra há, jafnvel hærri.
„Þarna þyrfti að setja mikinn hita inn í tiltölulega lítið loftrými til að vega á móti vindáhrifum, kulda og frosti fyrir utan. Mikill hiti kallar jafnframt á að plönturnar hafi greiðan aðgang að vatni og við hátt rakastig myndast móða inni á glerinu og nauðsynlegt að bregðast við því.
Af myndum að dæma eru turnarnir líka það háir að það er spurning hvernig þeir standast veðurhaminn í Vogahverfinu. Svo þarf að huga að lýsingu fyrir plönturnar því mikið myrkur yfir háveturinn er ekki draumastaða fyrir plönturnar,“ segir Guðríður.
-En er þetta hægt?
„Ég er bjartsýn að eðlisfari, en mér finnst þetta geta orðið ansi flókið í framkvæmd. Þetta þyrfti alla vega mjög góða tæknilega útfærslu og vöktun til að geta gengið upp. Þá veltir maður fyrir sér kostnaði. Ef ætlunin er að hafa svona turna mætti kannski velja kuldaþolnari tegundir pálma, sem þurfa ekki eins mikinn hita yfir veturinn,“ segir Guðríður.
Hún segir að í Garðyrkjuskóla LbhÍ hafi minni pálmatré lengi verið ræktuð. Þau verði ekki nema rúmir tveir metrar á hæð og húsrýmið leyfi ekki mikið hærri pálma. Nú séu döðlupálmar í uppeldi, en þeir verði felldir þegar þeir hafi náð þeirri hæð sem húsið leyfi.
Ekki sé óalgengt að fólk sé með lágvaxnari pálmategundir, eins og drekakylfurót, Cordyline australis, í görðum sínum, en þá þurfi yfirleitt að flytja í hús yfir vetrartímann og halda í 5-6 gráðum og frostlausri jörð.
Á heimasíðu borgarinnar er sagt frá verðlaunasamkeppninni og tillögu þýska listamannsins Karin Sander, sem bar sigur úr býtum. Þar segir að í deiliskipulagi Vogabyggðar komi fram að listaverk skuli vera hluti af heildarhönnun almenningsrýma í hverfinu. Fjárhæð sem verja eigi til kaupa á listaverki eða listaverkum nemi 140 milljónum króna og sé verkefnið kostað sameiginlega af Reykjavíkurborg og lóðaeigendum í Vogabyggð.
Í umsögn dómnefndar segir:
„Tillagan er óvænt, skemmtileg og djörf. Pálmatrjám er komið fyrir í tveimur sívölum, turnlaga gróðurhúsum sem sett eru niður við jaðar miðlægs torgs við bakka Ketilbjarnarsíkis. Frá þeim stafar hlýja og ljós. Pálmatré bera með sér andblæ suðrænna landa, eins og höfundur tillögunnar bendir á. Þau eru tákn heitra og framandi staða og menningar og fela um leið í sér minni um útópíu þar sem paradísarástand ríkir. Hér skjóta þau rótum í köldu og hrjóstrugu landi – rétt eins og fólk frá framandi slóðum sem hefur sest hér að.“
Í gróðurhúsunum megi lesa tíma því íbúarnir geti fylgst með trjánum vaxa frá því að vera lítil og þar til þau verði stór og beri ávexti. Tillagan gerir ráð fyrir að hægt verði að skipta pálmatrjánum út fyrir önnur tré, til að mynda japönsk kirsuberjatré, eftir 10 til 15 ár óski íbúarnir þess. Það er kostur að íbúarnir öðlist þannig beina hlutdeild í þróun verksins, segir í umsögninni.