Leyfi vegna aðflugsbúnaðar samþykkt

Akureyrarflugvöllur.
Akureyrarflugvöllur. mbl.is/Sigurður Bogi

Skipulagsráð Akureyrabæjar hefur samþykkt að gefið verði út framkvæmdaleyfi fyrir landfyllingu og jarðvegsskiptum vegna uppsetningar aðflugsbúnaðar fyrir Akureyrarflugvöll.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu koma framkvæmdirnar til með að raska leirum sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd og ber að forðast að raska þeim, nema brýna nauðsyn beri til, að því er kemur fram í fundargerð.

Framkvæmdirnar eru að mati skipulagsráðs nauðsynlegar til að tryggja öryggi flugvallarins. Gerðar verða ráðstafanir til að takmarka umfang framkvæmdasvæðis og verða núverandi aðkomuleiðir nýttar eins og mögulegt er.

Í ákvörðun um matsskyldu er vitnað í greinargerð Isavia. Þar kemur fram að framkvæmdin sé tvíþætt. Annars vegar felist hún í aðflugshallasendi sem verður staðsettur við vestanverðan norðurenda flugbrautarinnar. Gera þarf tveggja hektara landfyllingu til að koma honum fyrir.

Hins vegar þarf að reisa stefnuvita sem verður staðsettur austan við suðurenda flugbrautarinnar. Þar þarf að skipta um jarðveg á 1.200 fermetra svæði. Á báðum stöðum þarf að reisa loftnet sem verður hæst um 15 metrar og um sjö fermetra tengihús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert