Rúmlega tvö óhöpp á dag

Skólabíll og bílaleigubíll rákust saman á einbreiðri brú yfir Tungufljót …
Skólabíll og bílaleigubíll rákust saman á einbreiðri brú yfir Tungufljót skammt norðan við Geysi síðdegis í gær. Ljósmynd/Margeir Ingólfsson

„Við fáum daglega tilkynningar um umferðaróhöpp af einhverju tagi,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, við mbl.is. Skólabíll og bílaleigubíll rákust saman á einbreiðri brú skammt norðan við Geysi í gær. Bílstjóri skólabílsins sagði það algenga sjón á þessum árstíma að sjá bíla utan vegar.

Margeir Ingólfsson, ökumaður skólabílsins, sagði í gær við mbl.is að vegirnir væru fullir af fólki sem ætti ekki að vera úti í umferðinni, sérstaklega í íslenskri vetrarfærð. Oddur segir að fólk lendi í vandræðum víða um Suðurland en lögreglu hafa borist tilkynningar um 68 umferðarslys á Suðurlandi í janúar.

Oddur segir að bæði innlendir og erlendir ökumenn lendi í vandræðum og ástæður þessu séu ýmsar. „Í einhverjum tilfellum er fólk ekki kunnugt vetraraðstæðum og stundum er það reynsluleysi, fólk kannski þekkir vetraraðstæður en er óvant að keyra,“ segir Oddur.

„Síðan eru þetta líka fullorðnir íslenskir ökumenn sem ofmeta eigin getu og þá fer sem fer. Það eru allar útgáfur af þessu.“

Ökumaður bílaleigubílsins virðist hafa haldið að einbreiða brúin væri tvíbreið þegar óhappið varð í gær og spurði hvers vegna plássið til að mætast á brúnni væri ekki meira. Oddur kannast ekki við dæmi þess að ökumenn telji að það eigi að vera hægt að mætast á einbreiðum brúm.

Hann bendir á að umferðaróhöppin hafi verið fleiri en 68 í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi í janúar vegna þess að það beri ekki að tilkynna þau til lögreglu nema slys verði á fólki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert