Prentsmiðjan Oddi hefur kynnt til sögunnar nýja tegund vatnsheldra pappakassa til matvælaflutnings sem leysa eiga kassa úr frauðplasti af hólmi. Kristján Geir Gunnarsson, forstjóri fyrirtækisins segir hina nýju vöru stórt skref í átt til aukinnar umhverfisverndar, m.a. í íslenskum sjávarútvegi.
Í gær var starfsfólki Odda tilkynnt að nú væri unnið að því að skipta fyrirtækinu upp í tvö aðskilin og sjálfstæð félög. Eftir breytingarnar mun Prentsmiðjan Oddi hafa með höndum alla prentvinnslu en Kassagerð Reykjavíkur verður endurvakin og mun hún halda utan um alla umbúðasölu sem byggð hefur verið upp innan Odda. Samhliða breytingunum missa 8 starfsmenn vinnuna.
Kristján Geir ræðir í ítarlegu viðtali í ViðskiptaMogganum í dag þær gríðarlegu breytingar sem fyrirtækið hefur gengið í gegnum á undanförnum árum. Frá árinu 2013 hefur starfsfólki félagsins fækkað um ríflega 70%. Kristján Geir segir að breytingaferli síðustu missera muni hins vegar tryggja viðgang fyrirtækjanna tveggja sem nú verða til.