Svarta húfan sem lýsir upp myrkrið

Mæðgurnar Dísa Jakobsdóttir og Ragnhildur Gísladóttir.
Mæðgurnar Dísa Jakobsdóttir og Ragnhildur Gísladóttir. Ljósmynd/Saga Sig

Hún er svört og látlaus með tveimur hvítum bókstöfum. En Fokk ofbeldi-húfan, sem landsnefnd UN Women á Íslandi hefur sölu á í dag, er engin venjuleg húfa því allur ágóði af henni rennur til uppbyggingar athvarfs fyrir Jasídakonur í Írak.

„Hún lýsir upp myrkrið á tvenns konar hátt,“ segir Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra landsnefndar UN Women á Íslandi, og vísar þar til þess að stafirnir FO, sem prýða húfuna og eru skammstöfun fyrir Fokk ofbeldi, eru úr endurskinsefni og gerir þannig þann sem húfuna ber sýnilegan í vetrarmyrkrinu. „En ágóðinn af húfunum lýsir líka upp líf Jasídakvennanna,“ bætir Stella við.

Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women.
Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women.

Húfan nú seld í fjórða sinn

UN Women heyrir undir Sameinuðu þjóðirnar og fer með umboð þeirra til að vinna að jafnrétti kynjanna og veita stuðning til verkefna sem ætlað er að efla réttindi kvenna og auka þátttöku þeirra í samfélaginu. Þetta er í fjórða skipti sem landsnefnd UN Women á Íslandi selur húfur til að safna fé til að uppræta ofbeldi gegn konum á heimsvísu, húfan er með nokkuð öðru sniði nú en þær fyrri og ástæða þess er að nefndin fagnar 30 ára afmæli sínu í ár. Markmiðið er að safna fé til að byggja athvarf í borginni Mósúl í Írak fyrir Jasídakonur, sem hafa verið neyddar í kynlífsþrælkun af liðsmönnum vígasveita Íslamska ríkisins.

Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi, segir athvörf fyrir …
Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi, segir athvörf fyrir Jasídakonur í Írak afar mikilvæg. Ljósmynd/UN Women

Oft útskúfað vegna ofbeldis

Jasídar eru trúarhópur af kúrdískum uppruna í Írak sem framan af bjuggu víða um landið, en eftir að þeir urðu skotspónn samtakanna sem kenna sig við Íslamska ríkið hafa margir flúið land eða verið myrtir. Þúsundum Jasídakvenna hefur verið rænt af vígasveitunum bæði í Írak og Sýrlandi og þeim haldið í kynlífsánauð. Talið er að a.m.k. 7.000 konum og börnum hafi verið rænt á þennan hátt og að um 3.000 séu enn í haldi.

Saga Garðarsdóttir og Snorri Helgason með litlu dóttur sinni, Eddu …
Saga Garðarsdóttir og Snorri Helgason með litlu dóttur sinni, Eddu Kristínu Snorradóttur, með Fokk ofbeldi-húfur á höfði. Ljósmynd/Saga Sig

Ef konurnar sleppa úr prísundinni tekur við erfiður tími; margar þeirra stríða við áfallastreituröskun og því til viðbótar eiga þær erfitt með að komast aftur inn í samfélagið því þeim er gjarnan hafnað af því vegna þess ofbeldis sem þær hafa orðið fyrir og þeim hreinlega útskúfað.

Írakski mannréttindafrömuðurinn Nadia Murad vakti athygli alheimsins á þessari skelfilegu stöðu Jasídakvenna þegar hún hlaut friðarverðlaun Nóbels í fyrra. Hún er Jasídi og henni var rænt af hryðjuverkasamtökunum fyrir fimm árum og var haldið sem kynlífsþræl í þrjú ár áður en henni tókst að flýja. Murad er nú orðin talskona þolenda þjóðarmorða og kynferðisofbeldis í stríði á alþjóðavettvangi.

Þegar líkamar verða að vígvelli

Nokkrum athvörfum fyrir Jasídakonur í þessari stöðu hefur nú þegar verið komið á stofn, en þörf er á fleirum og íslenska landsnefndin vill leggja sitt af mörkum í þeim efnum. „Nauðganir og kynferðisofbeldi eru markviss hluti af hernaði og notað sem aðferð í stríði til að brjóta niður samfélög og fjölskyldur. Þarna eru líkamar kvenna, og oft líka barna, gerðir að vígvelli,“ segir Stella. „Konurnar hafa upplifað hræðilegar aðstæður og margar þeirra hafa þolað nauðganir mörgum sinnum á dag. Þessi athvörf, sem UN Women hefur verið að koma upp, eru óskaplega mikilvæg því þar geta konurnar byggt sig upp og fengið það skjól og þá aðstoð sem þær þurfa. Sumar þessara kvenna verða ófrískar eftir nauðganirnar, þær fæða þá börn óvinanna og eiga enn erfiðara með að komast aftur inn í samfélagið. Þarna er leitast við að veita þeim þá valdeflingu sem þær þurfa á að halda til að halda áfram með sitt líf.“

Handhafi Friðarverðlauna Nóbels í fyrra, Nadia Murad, hefur vakið athygli …
Handhafi Friðarverðlauna Nóbels í fyrra, Nadia Murad, hefur vakið athygli á stöðu Jasídakvenna, en hún er sjálf Jasídi og var haldið sem kynlífsþræl af liðsmönnum vígasveita Íslamska ríkisins. KARIM JAAFAR / AFP

Stella er bjartsýn á að húfunum verði vel tekið eins og endranær, en fyrri útgáfur af húfunum hafa selst upp á skömmum tíma. Þær fást á vefsíðu UN Women á Íslandi og í verslunum Vodafone frá og með deginum í dag.

Fokk ofbeldi séríslenskt slagorð

Að sögn Stellu hefur húfusala íslensku landsnefndarinnar vakið athygli systurnefnda hennar víða um heim, reyndar hafi allt starf landsnefndar UN Women hér á landi vakið eftirtekt fyrir frumleika og hversu vel landsnefndinni hefur tekist að vekja athygli á málstað sínum. Til dæmis hefur myndbandaherferð íslensku landsnefndarinnar sem sýnir karlmenn fordæma kynbundið ofbeldi vakið athygli víða um heim. Yfir hálf milljón hefur horft á myndböndin og þau m.a. verið sýnd á vegum UN Women í New York. „Það er séríslenskt að selja húfur með áletruninni Fokk ofbeldi, en við höfum kynnt húfurnar víða um heim og margir ætla að fara að fordæmi okkar,“ segir Stella.

Allur ágóði af sölu húfanna rennur óskiptur til athvarfs fyrir …
Allur ágóði af sölu húfanna rennur óskiptur til athvarfs fyrir Jasídakonur í Írak sem hafa þurft að þola grimmilegt kynferðisofbeldi. Ljósmynd/UN Women

Spurð um hvort búast megi við að landssamtök í öðrum löndum muni þá selja húfur sínar með samsvarandi áletrunum á erlendum málum, eins og t.d. „Fuck Violence“ á ensku, segist Stella ekki viss um að svo verði. „Þetta þyrfti væntanlega að aðlaga hverju samfélagi fyrir sig. Þetta er sterkt orðalag, vissulega ögrandi en það gengur hér á landi. Slagorðið Fokk ofbeldi hentar okkar samfélagi, hugsanlega vegna þess að við erum komin lengra í jafnréttisbaráttunni en mörg önnur lönd.“

Bræðurnir Logi Pedro og Unnsteinn Manúel Stefánssynir og faðir þeirra, …
Bræðurnir Logi Pedro og Unnsteinn Manúel Stefánssynir og faðir þeirra, Stefán Unnsteinsson, skarta allir Fokk ofbeldi-húfum sem landsnefnd Un Women hefur sölu á í dag Ljósmynd/Saga Sig
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert