Margt bendir til þess að inflúensan, sem gjarnan herjar á landsmenn á þessum tíma árs, gæti orðið öllu vægari en undanfarin ár.
Kemur þar til að bóluefnið sem fékkst til landsins í haust virðist hafa verið gott auk þess sem fleiri en oftast áður mættu í sprautu, eða um 68 þúsund manns á landinu öllu.
Þetta segir Óskar Reykdalsson, læknir og settur forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Inflúensan byrjar gjarnan að láta á sér kræla í nóvember en nær hámarki í febrúar og mars. Inflúensu má skipta í nokkra flokka en einkennin eru þó jafnan hin sömu; fólk veikist snögglega, fær háan hita og verki í höfuð og bein. „Jú, flensutilvikin eru aðeins að byrja að detta inn hjá okkur núna, en þetta er heldur rólegra en í meðalári,“ segir Óskar, en bóluefni vegna flensunnar er nú uppurið.