Frekari skoðun á mögulegri bótaábyrgð

Verksmiðja United Silicon í Helguvík.
Verksmiðja United Silicon í Helguvík. mbl.is/RAX

Skoða á þátt sérfræðinga í fjárfestingaferli United Silicon með það fyrir augum að kanna mögulega bótaábyrgð. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýju lögfræðiáliti sem fimm lífeyrissjóðir, sem fjárfestu í kísilverksmiðjunni, létu vinna fyrir sig. Þá er einnig talið eðlilegt að kannaður verði réttur sjóðanna gagnvart hinu opinbera vegna mats á umhverfisáhrifum, útgáfu starfsleyfa og gerð fjárfestingarsamnings um ríkisaðstoð og ívilnana vegna kísilverksmiðjunnar.

Greint er frá niðurstöðu skýrslunnar í tilkynningu sem send var á fjölmiðla, en skýrslan var unnin af Stefáni Árna Auðólfssyni hjá LMB Mandat fyrir fimm lífeyrissjóði sem eru; Festa lífeyrissjóður, Eftirlaunasjóður atvinnuflugmanna, Brú lífeyrissjóður B-deild vegna Eftirlaunasjóðs Reykjanesbæjar, Frjálsi lífeyrissjóðurinn og Lífeyrissjóður starfsmanna Búnaðarbankans.

„Ýmislegt hefði mátt vinnast betur hjá sérfræðingum, sem komu að málinu, að því er virðist, og lagt er til að frekari skoðun fari fram á þeim þætti til mats á mögulegri bótaábyrgð,“ segir í álitinu. Kemur fram að þessari niðurstöðu hafi verið fylgt eftir með útsendingu afstöðubréfa til þeirra sem málið varða, en þá er aðallega horft til verkfræðistofa sem voru fengnar til að leggja mat á áætlanir félagsins svo og endurskoðenda þess, en gögn þeirra „mynduðu hluta þess grunnar sem fjárfestingarákvarðanir voru byggðar á,“ segir í álitinu.

Lífeyrissjóðirnir kærðu Magnús Ólaf Garðarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra United Silicon, á vormánuðum í fyrra vegna þess sem talin eru alvarleg brot gagnvart sjóðunum. Segir að ábyrgð annarra forsvarsmanna félagsins muni væntanlega skýrast betur í rannsókn lögreglu í tengslum við kæruna og við slitameðferð félagsins.

Þá kemur einnig fram í álitinu að mat á umhverfisáhrifum, útgáfa starfsleyfa og gerð fjárfestingarsamnings um ríkisaðstoð og ívilnanir vegna kísilverksmiðjunnar í Helguvík, hafi verið meðal lykilforsendna þess að fjárfestar voru tilbúnir að leggja fé til verkefnisins. Í ljósi þess hvernig mál þróuðust telur lögmaðurinn að lífeyrissjóðirnir „kanni rétt sinn gagnvart hinum opinberu aðilum, enda mikilvægt fyrir alla aðila að nokkur lærdómur verði dreginn af þessu.“ Þar er meðal annars horft til Skipulagsstofnunar, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Umhverfisstofnunar og Vinnueftirlits ríkisins.

Skýrslan verður birt á vefsíðum sjóðanna og er nú til umfjöllunar og framhaldsákvarðana í stjórnum sjóðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka