Ræddu fésektir vegna kjarasamningsbrota

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Hari

Kröfur stéttarfélaganna, meðal annars að komið yrði á fésektum ef brot yrðu á kjarasamningum, voru ræddar á fundi í kjaradeilu SA og fjögurra stéttarfélaga í morgun. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að deiluaðilar haldi áfram að ræða saman.

Sólveig segir að yfirferð sem hófst í vikunni í tenglum við kröfur stéttarfélaganna hafi verið kláruð í dag. Hún segir að fésektir vegna brota á kjarasamningi myndu stemma stigu við vaxandi vandamáli.

„Það snýr sérstaklega að okkar erlendu félagsmönnum þar sem verið er að svíkja þá um umsamdar greiðslur,“ segir Sólveig Anna við mbl.is. Einnig hafi fleiri atriði verið rædd, þar á meðal trúnaðarmenn á vinnustöðum.

Spurð hvort deiluaðilar væru nær því að ná saman sagði Sólveig að nokkur atriði yrðu rædd frekar í smærri hópi. Næsti fundur stéttarfélaganna og SA verður hjá sáttasemjara á miðvikudaginn í næstu viku.

Vil­hjálm­ur Birg­is­son, formaður Verka­lýðsfé­lags Akra­ness, sagði við mbl.is á miðvikudag að honum þættu viðræðurnar ganga hægt. Stéttarfélögin þyrftu að fara að sjá fljótlega hvort deiluaðilar væru að fara að ná sam­an eða ekki og gaf því rúm­lega tveggja vikna tím­aramma, ell­egar myndu fé­lög­in slíta viðræðum og ræða við fé­laga sína um fram­haldið, þ.e. hvort gripið yrði til verk­fallsaðgerða.

„Þetta gengur hægt og við hittumst ekki aftur fyrr en á miðvikudag. Ég ætla ekkert að tjá mig um slit. Við erum enn í þessum viðræðum og höfum ekki rætt annað en að þær haldi áfram,“ segir Sólveig þegar ummæli Vilhjálms eru borin undir hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert