„Þetta var þriggja tíma fundur þar sem við fórum yfir mörg mál,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, við mbl.is eftir fund í kjaradeilu SA og fjögurra stéttarfélaga í morgun.
Hann segir að farið hafi verið yfir réttindamál og fyrirkomulag tengt launauppbyggingu. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði við mbl.is fyrr í dag að rætt hafi verið að komið yrði á fésektum ef brot yrðu á kjarasamningum.
Halldór staðfestir að það hafi verið eitt af því sem rætt var í morgun en segir enga ákvörðun liggja fyrir. Enn fremur vill hann ekki tjá sig neitt um efnislegt innihald funda.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sagði við mbl.is á miðvikudag að honum þættu viðræðurnar ganga hægt. Stéttarfélögin þyrftu að fara að sjá fljótlega hvort deiluaðilar væru að fara að ná saman eða ekki og gaf því rúmlega tveggja vikna tímaramma, ellegar myndu félögin slíta viðræðum og ræða við félaga sína um framhaldið, þ.e. hvort gripið yrði til verkfallsaðgerða.
Spurður um þau ummæli segir Halldór að SA setji ekki ófrávíkjanleg skilyrði. „Þetta eru samningaviðræður þar sem við leggjum til að báðir aðilar miðli málum. Ég hygg að það sé besta verklagið,“ segir Halldór en næsti fundur hjá sáttasemjara í kjaradeildunni er á miðvikudaginn.