Lögmaður Rositu YuFan Zhang, eiganda Sjanghæ-veitingastaðanna, hefur sent Ríkisútvarpinu formlega stefnu þar sem farið er fram á sex milljónir í miskabætur, 1,2 milljónir í bætur vegna birtingar og að ýmis ummæli verði dæmd dauð og ómerk. Er það vegna umfjöllunar fréttastofu RÚV um veitingastaðinn Sjanghæ á Akureyri 2017.
Sævar Þór Jónsson, lögmaður Rositu, staðfestir þetta í samtali við mbl.is. Hann segir að málið verði sótt af festu, en áður hafði formleg kröfugerð verið lögð fram á hendur RÚV, sem hafnaði kröfunni.
„Við teljum að málagrundvöllurinn sé mjög sterkur,“ segir Sævar.
Sjanghæ-málið vakti mikla athygli og var fyrirferðarmikið í fjölmiðlum landsins fyrstu dagana í september 2017. Í fyrstu frétt ruv.is af málinu 30. ágúst 2017 sagði meðal annars: „eigandi veitingastaðar á Akureyri er grunaður um vinnumansal. Grunur leikur á að starfsfólkið fái greiddar þrjátíu þúsund krónur á mánuði í laun og borði matarafganga af veitingastaðnum.“
Ummælin eru meðal þeirra sem stefnendur gera ósk um að verði dæmd dauð og ómerk.
Stéttarfélaginu Eflingu-Iðju bárust ábendingar um aðstæður starfsfólks á veitingastaðnum og rætt var við fulltrúa stéttarfélagsins í kvöldfréttum RÚV 30. ágúst, fyrir utan veitingastaðinn.
Stéttarfélagið komst að þeirri niðurstöðu að þær upplýsingar um kjör starfsmanna sem fram kæmu í gögnum sem aflað var við vinnustaðaeftirlitið stæðust almenna kjarasamninga og launataxta sem giltu á veitingahúsum. Grunur um mansal reyndist því ekki á rökum reistum, samkvæmt athugun stéttarfélagsins.
Í stefnunni á hendur RÚV segir að ljóst sé að starfsmenn Eflingar-Iðju hafi aldrei staðfest annað en að ábending hafi komið fram að og grunur léki á að eitthvert misferli væri í gangi.
Aldrei hafi verið fullyrt af hálfu starfsmanna stéttarfélagsins að grunur væri um refsiverða háttsemi líkt og ítrekað væri staðhæft í fréttaflutningi stefndu. Ekki hafi því verið tilefni til að aðhafast frekar í málinu enda hafi ábendingin ekki átt við rök að styðjast.
Enn fremur kemur fram í stefnunni að fréttin hafi fengið mikla útbreiðslu og að fréttaflutningurinn hafi haft alvarlegar afleiðingar fyrir rekstur staðarins, andlega líðan Rositu, sem og fjölskyldu hennar.