Vilja sex milljónir í bætur frá RÚV

Veitingastaðurinn Sjanghæ.
Veitingastaðurinn Sjanghæ. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Lögmaður Rositu YuFan Zhang, eig­anda Sjanghæ-veitingastaðanna, hefur sent Ríkisútvarpinu formlega stefnu þar sem farið er fram á sex milljónir í miskabætur, 1,2 milljónir í bætur vegna birtingar og að ýmis ummæli verði dæmd dauð og ómerk. Er það vegna umfjöllunar fréttastofu RÚV um veitingastaðinn Sjanghæ á Akureyri 2017.

Sævar Þór Jónsson, lögmaður Rositu, staðfestir þetta í samtali við mbl.is. Hann segir að málið verði sótt af festu, en áður hafði formleg kröfugerð verið lögð fram á hendur RÚV, sem hafnaði kröfunni.

„Við teljum að málagrundvöllurinn sé mjög sterkur,“ segir Sævar.

Sj­ang­hæ-málið vakti mikla at­hygli og var fyr­ir­ferðar­mikið í fjöl­miðlum lands­ins fyrstu dag­ana í sept­em­ber 2017. Í fyrstu frétt ruv.is  af málinu 30. ágúst 2017 sagði meðal annars: „eigandi veitingastaðar á Akureyri er grunaður um vinnumansal. Grunur leikur á að starfsfólkið fái greiddar þrjátíu þúsund krónur á mánuði í laun og borði matarafganga af veitingastaðnum.“

Ummælin eru meðal þeirra sem stefnendur gera ósk um að verði dæmd dauð og ómerk.

Stéttarfélaginu Eflingu-Iðju bárust ábendingar um aðstæður starfsfólks á veitingastaðnum og rætt var við fulltrúa stéttarfélagsins í kvöldfréttum RÚV 30. ágúst, fyrir utan veitingastaðinn.

Stéttarfélagið komst að þeirri niðurstöðu að þær upp­lýs­ing­ar um kjör starfs­manna sem fram kæmu í gögn­um sem aflað var við vinnustaðaeft­ir­litið stæðust al­menna kjara­samn­inga og launataxta sem giltu á veit­inga­hús­um. Grun­ur um man­sal reynd­ist því ekki á rök­um reist­um, sam­kvæmt at­hug­un stétt­ar­fé­lags­ins.

Í stefnunni á hendur RÚV segir að ljóst sé að starfsmenn Eflingar-Iðju hafi aldrei staðfest annað en að ábending hafi komið fram að og grunur léki á að eitthvert misferli væri í gangi.

Aldrei hafi verið fullyrt af hálfu starfsmanna stéttarfélagsins að grunur væri um refsiverða háttsemi líkt og ítrekað væri staðhæft í fréttaflutningi stefndu. Ekki hafi því verið tilefni til að aðhafast frekar í málinu enda hafi ábendingin ekki átt við rök að styðjast.

Enn fremur kemur fram í stefnunni að fréttin hafi fengið mikla útbreiðslu og að fréttaflutningurinn hafi haft alvarlegar afleiðingar fyrir rekstur staðarins, andlega líðan Rositu, sem og fjölskyldu hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert