„Það er eiginlega bara tímaspursmál hvenær við fáum mjög slæma gróðurelda og maður er mjög órólegur yfir sumum sumarbústaðahverfum þar sem þau eru svo þétt byggð í miklum gróðri. Við gætum setið uppi með að tugir ef ekki hundruð sumarbústaða brynnu bara einn daginn,“ segir Trausti Jónsson, sérfræðingur í veðurfarsrannsóknum.
Slíkt gæti gerst á næsta ári eða eftir tíu ár að mati Trausta, en hættan sé raunveruleg. Tvennt spili inn í; ræktun sumarbústaðaeigenda í þéttri byggð og aukin gróska vegna hlýnunar jarðar. Ekki þurfi annað til en snjóléttan og þurran vetur sem fylgi þurrt vor og þá geti fólk setið uppi með illviðráðanlegt ástand.
„Snjór jafnar raka í jörðu þannig að mikið snjóleysi á vetrum getur haft afleiðingar á vorin og sumrin og jörð orðið þurrari en áður. Með hækkandi hita verður gróður svo sífellt gróskumeiri sem aftur hefur í för með sér hættu á gróðureldum,“ segir Trausti ennfremur en í Sunnudagsmogganum er fjallað ítarlega um veðurfar og framtíðarhorfur.