Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, sagðist í viðtali við Fanneyju Birnu Jónsdóttur í Silfrinu á RÚV í morgun telja að „veislan á þakinu“ hafi verið sviðsett. Vísar hann þar til ásakana Carmenar Jóhannsdóttur sem sótti veislu hjá Jóni Baldvini og konu hans, Bryndísi Schram, þegar Carmen var í ferðalagi á Spáni með móður sinni.
Jón Baldvin sagði enga aðra skýringu vera á því hvers vegna Carmen og móðir hennar komu í heimsókn umrætt kvöld nema til að setja á svið umrætt atvik. Þegar Fanney spurði hvers vegna nokkur kona ætti að gera slíkt svaraði Jón Baldvin á þá leið að það væri ekki hans að skýra það.
Jón Baldvin var mættur til að ræða ásakanirnar sem hann hefur á síðustu misserum verið borinn, um að hafa beitt konur kynferðislegu áreitni og að hafa í krafti valds síns látið nauðungarvista dóttur hans, Aldísi Schram.
„Það er enginn einn maður sem nauðungarvistar annan einstakling. Það er neyðarúrræði lækna. Það þarf aðkomu fleiri lækna og það þarf atbeina dómsmálaráðuneytis,“ sagði Jón Baldvin sem sagði það fráleitt að hann einn hefði stöðu sinnar vegna getað staðið fyrir því að dóttir hans væri nauðungarvistuð.
Honum var tíðrætt um geðsjúkdóma Aldísar og nefndi m.a. að eitt einkenni geðhvarfasýki, sem hann sagði að Aldís hefði verið greind með árið 1992, væri þráhyggja um kynlíf og kynhneigð. „Þetta eru órar úr sjúku hugarfari,“ sagði Jón Baldvin meðal annars þegar rætt var um ásakanirnar sem Aldís hefur borið hann.
Þá ræddu þau Fanney einnig um bréf sem Jón Baldvin sendi Guðrúnu Harðardóttur og komust í hámæli þegar tímaritið Nýtt líf fjallaði um þau árið 2012. Um þau sagði Jón Baldvin m.a. að einungis eitt bréf hefði verið ósæmilegt og að hann hefði beðist afsökunar og fyrirgefningar á því máli. „Það er engum öðrum um að kenna í þessu máli en sjálfum mér,“ sagði Jón Baldvin.
Viðtalið í heild má sjá og heyra á ruv.is.