Lífsreynslan hefur ýtt mér lengra

Hilmar Snær Örvarsson skíðamaður.
Hilmar Snær Örvarsson skíðamaður. Haraldur Jónasson/Hari

Hann var ósköp venjulegt barn sem æfði handbolta og fótbolta með félögum sínum. En þegar Hilmar Snær Örvarsson var aðeins átta ára greindist hann með krabbamein í hné og svo fór að aflima þurfti hann til að koma í veg fyrir að meinið dreifði sér frekar um líkamann. Hann gekkst undir flókna aðgerð, þar sem ökklanum var í reynd breytt í hné sem gerir honum kleift að hreyfa fótinn og ganga eins eðlilega og kostur er á gervifætinum frá Össuri sem hann segir hafa tekið sig um ár að venjast að fullu. Í millitíðinni fór hann ferða sinna í hjólastól og á hækjum.

Áður en hann missti fótinn hafði Hilmar Snær farið á skíði, meðal annars með fjölskyldunni í Austurríki, og þekkti því íþróttina án þess þó að hafa stefnt að stífum æfingum og keppni. Þrátt fyrir áfallið kom aldrei til greina að hætta í íþróttum og þegar foreldrar hans sáu auglýst námskeið í Hlíðarfjalli við Akureyri árið 2010, þegar Hilmar Snær var níu ára, kviknaði neistinn.

Fann sig strax í brekkunni

„Það var mjög gaman á þessu námskeiði og ég fann strax að skíðamennska átti vel við mig. Ég byrjaði því að æfa reglulega hjá Víkingi, þar sem einstaklega vel var tekið á móti mér. Ég hef haft marga þjálfara gegnum tíðina sem allir hafa reynst mér frábærlega.“

Fyrst um sinn leiddi Hilmar Snær ekki hugann að keppni, hvorki hér heima né erlendis, en tólf eða þrettán ára var hann farinn að gæla við slíka drauma; nefndi meira að segja í fjölmiðlaviðtali að gaman yrði að fara á Ólympíuleikana. Sá draumur rættist í fyrra, í Pyeongchang í Suður-Kóreu, þar sem Hilmar Snær var aukinheldur fánaberi Íslands.
Fyrsta mótið erlendis var þó tveimur árum áður, 2016 í Hollandi. Sú braut er innanhúss sem Hilmar Snær viðurkennir að hafi verið sérstakt en ofboðslega skemmtilegt. Síðan hefur hvert mótið rekið annað.

Hilmar Snær í brekkunni í Slóveníu á HM.
Hilmar Snær í brekkunni í Slóveníu á HM.

Í síðasta mánuði tók Hilmar Snær þátt í HM fatlaðra í alpagreinum í Slóveníu og rétt missti af bronsinu í svigi standandi skíðamanna; varð fjórði. Skömmu áður varð hann fyrsti Íslendingurinn til að vinna heimsbikarmót á skíðum. 

Hann hefur að vonum kynnst andstæðingum sínum vel og á orðið góða vini í þeim hópi. „Auðvitað er þetta keppni en við styðjum samt vel hver við annan og gleðjumst með þeim sem vegnar best hverju sinni. Allir eiga sína sögu, sína lífsreynslu og enginn er feiminn að ræða þau mál. Flestir sem ég hef kynnst hafa fæðst með fötlun sína en einhverjir orðið fyrir slysi. Ég hef hins vegar ekki enn þá hitt neinn á þessum mótum sem hefur misst fót vegna krabbameins eins og ég.“

Hefur ýtt honum lengra

Sjálfur er hann löngu hættur að hugsa um veikindin og aflimunina. „Auðvitað var erfitt og leiðinlegt að ganga í gegnum þetta; greinast með krabbamein, vera í lyfjameðferð í tíu mánuði og missa fótinn. Ég er hins vegar löngu hættur að velta þessu fyrir mér og spyrja: Af hverju ég? Ég hef heldur ekki látið þetta stöðva mig; ef eitthvað er þá hefur þessi lífsreynsla ýtt mér lengra og þá er ég ekki bara að tala um skíðin heldur lífið almennt. Ég hef fengið stór tækifæri í lífinu sem ég hefði mögulega aldrei fengið hefði ég ekki veikst. Þá myndi ég heldur ekki þekkja allt það frábæra fólk sem ég hef kynnst gegnum skíðaíþróttina.“

Besta dæmið um það er án efa kærasta hans, Aníta Ýr Fjölnisdóttir, en þau kynntust gegnum skíðin hjá Víkingi. Aníta Ýr er að vísu hætt keppni í dag en sinnir þjálfun. Spurður hvort Aníta Ýr fylgi honum á mót erlendis svarar Hilmar Snær neitandi. „Hún hefur ekki haft tök á því ennþá en það kemur pottþétt að því.“

Á fleygiferð á Vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang í fyrra.
Á fleygiferð á Vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang í fyrra. AFP

Hilmar Snær er ekki við eina fjölina felldur í sportinu; fram til ársins 2013 æfði hann körfubolta en hætti í honum til að einbeita sér að skíðunum. Á sumrin stundar hann svo golf af miklu kappi. „Íþróttir eru mitt líf og yndi. Ég fékk golfsett í afmælisgjöf þegar ég varð níu ára og fann mig strax vel í þeirri íþrótt. Ég hef alltaf haft svipaðan metnað í golfinu og á skíðunum enda þótt ég hafi ekki keppt erlendis. Alla vega ekki enn þá. Það fer mjög vel saman að stunda þessar tvær greinar enda er önnur sumarsport og hin vetrarsport. Ef eitthvað er þá á ég von á því að verða lengur í golfinu enda geta menn æft og keppt í þeirri grein fram á gamalsaldur. Maður sér ekki marga sextuga í skíðabrekkunum að keppa,“ segir hann hlæjandi.

Hilmar Snær leyfir sér ekki að horfa langt fram í tímann þegar kemur að keppni á skíðum. „Auðvitað langar mig að halda áfram, alla vega meðan ég er að bæta mig og áhuginn er fyrir hendi. Ég veit að ég er ekki búinn að toppa í þessu sporti. Það er hins vegar svo margt sem spilar inn í dæmið, svo sem hvaða nám ég mun fara í og æfingaaðstaðan. Til að taka sem mestum framförum þarf ég að geta æft og keppt reglulega erlendis. Þess vegna verð ég eiginlega að taka stöðuna á hverju hausti. Sjá hvar ég stend.“

Næstu Vetrarólympíuleikar verða í Peking eftir þrjú ár og Hilmar Snær segir allt of snemmt að segja til um hvort hann verði þar meðal keppenda. „Í ljósi þess sem ég sagði hér áðan þá er ég ekki tilbúinn að svara því nærri því strax. En verði ég enn þá á fullu í skíðunum yrði gaman að vera með. Það er ekki nokkur spurning. Ólympíuleikarnir eru æðsta markmið flestra íþróttamanna.“

Nánar er rætt við Hilmar Snæ í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert