Búast við lokunum á Suðurlandi

Búast má við lokunum á vegum á Suðurlandi vegna storms …
Búast má við lokunum á vegum á Suðurlandi vegna storms á morgun. Mynd úr safni. mbl.is/Jónas Erlendsson

Vegagerðin segir að búast megi við því að vegir á Suðurlandi lokist eða verði ófærir vegna veðurs á morgun. Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun vegna veðurs á Suðurlandi frá 15 til 22 á morgun.

Samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni er líklegt að þjóðvegur 1 á milli Hvolsvallar og Víkur verði lokaður vegna stormsins á milli kl. 12 á morgun og fram til kl. 4 aðfaranótt miðvikudags.

Þá má búast við því að vegurinn um Skeiðarársand og Öræfasveit, þjóðvegur 1 á milli Núpsstaðar og Hafnar, lokist kl. 16 á morgun og verði ekki opnaður á ný fyrr en kl. 10 að morgni miðvikudags.

Appelsínugul viðvörun

Veðurstofa Íslands segir að það gangi í austanstorm eða -rok og jafnvel staðbundið ofsaveður í Austur-Landeyjum og undir Eyjafjöllum á morgun.

„Hviður geta náð allt að 45 m/s. Hætta á foktjóni og ekkert ferðaveður,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Vegagerðin bendir vegfarendum einnig á að víða séu vegir hálir, þar sem kalt veður með stífri norðanátt valdi því að hálkuvörn bindist illa við yfirborð vega.

„Hluti hálkuvarnarefnis fýkur af við dreifingu og öðrum hluta feykir umferð burt. Yfirborð vegar getur því orðið hált áfram þrátt fyrir hálkuvarnir,“ segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert