Konur sem segjast hafa orðið fyrir barðinu á Jóni Baldvini Hannibalssyni opnuðu nú í morgun bloggsíðuna metoo-jonbaldvin.blog.is.
Á síðunni er að finna 23 nafnlausar sögur kvenna sem segjast vera þolendur kynferðisbrota og áreitis Jóns Baldvins Hannibalssonar og ná þær sögur sem þar eru birtar yfir tæplega 60 ára tímabil.
Meðal frásagnanna sem birtar eru á síðunni er saga ungrar konu sem segist fyrst hafa komist í kynni við Jón Baldvin á skemmtistað á níunda áratug síðustu aldar og er birt undir heitinu „Ritstjórinn Jón Baldvin“.
Hún var þá á fyrsta ári í háskólanámi en hann var ritstjóri Alþýðublaðsins. Hún hafi verið á heimleið eftir kvöld á Hótel Borg með skólafélögum og jafningjum. „Skyndilega birtist maður í hópnum og tekur utan um mig. Enginn aðdragandi, ekkert samtal. Allt í einu sat hann í bíl með mér á leið heim til mín. Því miður voru leigufélagar mínir ekki heima,“ skrifar hún.
Jón Baldvin hafi talað og talað og sagt af sér frægðarsögur, en engin gagnkvæm samskipti hafi átti sér stað. „Ég frosin og veit ekki mitt rjúkandi ráð, skil ekki hvað er að gerast. Kynlífsathöfn fór fram í herbergi mínu en ég var algjörlega fjarverandi, líkamlega og andlega. Maðurinn heldur áfram að tala. Ég man að hann sagði glaðhlakkalega frá því þegar hann missti sveindóm sinn, unglingspiltur á sjúkrahúsinu á Ísafirði er hjúkrunarkona lagðist í sjúkrarúmið hjá honum.“
Sjálf hafi hún verið yfirkomin af skömm og sektarkennd, en ekki haft orðaforða til að takast á við þetta.
Nokkru síðar er hún var úti með vinkonu hafi hún séð til hans „sitja að sumbli“ með fyrrverandi nemendum Menntaskólans á Ísafirði og hún hafi í kjölfarið strunsað út skelfingu lostin.
„Stuttu síðar varð ég vör við að verið var að elta mig. Í ljós kom að það var JBH. Ég fraus og varð öðru sinni málstola og gat enga björg mér veitt. Einhverjar tilraunir voru til kynlífsathafna, án áhuga míns. Ég bara fraus. Líkaminn og andinn höfnuðu honum. Ég man ekki hvernig þetta fór en hann stoppaði stutt.“
Er hún sá til Jóns Baldvins á opinberum viðburðum næstu misseri hafi viðbrögð hennar ávallt orðið þau sömu. Hún hafi svitnað, svimað og hendur hennar titrað og skolfið.