Íslensk stjórnvöld styðja Guaidó

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að íslensk stjórnvöld styðji Juan …
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að íslensk stjórnvöld styðji Juan Guaidó sem forseta Venesúela. mbl.is/Eggert

Íslensk stjórnvöld styðja Juan Guaidó, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Venesúela, sem forseta landsins, þar til boðað hefur verið til frjálsra kosninga. Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra í samtali við mbl.is.

„Við þekkjum öll aðstæður í Venesúela. Það hefur farið vaxandi þrýstingur í alþjóðasamfélaginu á að það verði boðað til lýðræðislegra kosninga og sá frestur sem Evrópuþjóðirnar gáfu í gær, hann er runninn út án þess að Maduro [forseti] yrði við því,“ segir Guðlaugur Þór.

„Við erum á sama stað og Norðurlöndin og flest Evrópuríki þegar kemur að því að styðja Guaidó, við þessar aðstæður, sem forseta, þangað til að nýjar lýðræðislegar kosningar verða haldnar,“ bætir hann við.

Hefur verið gagnrýninn á stöðu mála í Venesúela

Utanríkisráðherra segist hafa miklar áhyggjur af stöðu mannréttindamála í Venesúela og að það sé ekki nýtilkomið. Í ríkinu hafi réttkjörið þjóðþing verið svipt völdum og forsetakosningar haldnar, sem hafi engan veginn endurspeglað vilja fólksins. Þá séu dómstólar almennt taldir á bandi valdhafa.

„Við erum að sjá sjúkdóma og farsóttir og mjög slæmt efnahagsástand, sem hefur meðal annars leitt af sér að þrjár milljónir íbúa hafa flúið landið,“ segir utanríkisráðherra.

„Ég hef gagnrýnt ástandið í Venesúela og stöðu mannréttindamála þar mjög lengi, meðal annars á vettvangi Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna og því miður er staðan eins og hún er.“

Juan Guaidó ræðir við fréttamenn fyrir utan þinghöllina í Caracas …
Juan Guaidó ræðir við fréttamenn fyrir utan þinghöllina í Caracas í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert