Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, vísar því á bug að stúdentar ættu að forðast skiptinám í Bretlandi vegna óvissunnar um Brexit.
Menntamálaráðherra Noregs, Iselin Nybø, hefur ráðlagt norskum stúdentum sem hyggja á skiptinám að forðast námsdvöl í Bretlandi í haust.
„Ég hvet stúdenta til að horfa til Bretlands eins og annarra landa þar sem öflugir háskólar eru starfræktir. Ég vil að okkar fólk sæki sér menntun í bestu skólana. Undirbúningur að Brexit hófst árið 2016, mennta- og menningarmálaráðuneytið heldur mjög þétt utan um allar samstarfsáætlanir, vísindaáætlanir og öll samskipti er varða Bretland,“ segir Lilja í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.