Flokkur fólksins og Framsókn tapa mestu

Flokkur fólksins tapar hlutfallslega mestum stuðningi í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. …
Flokkur fólksins tapar hlutfallslega mestum stuðningi í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Stuðningur við flokkinn mælist nú 3,7%. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flokkur fólksins og Framsóknarflokkurinn tapa mestu fylgi í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Hástökkvari á milli þjóðarpúlsa er Sósíalistaflokkur Íslands og næst á eftir fylgja Píratar. Gallup birti könnunina á vef sínum í gær. 

Framsóknarflokkurinn tapar mest allra flokka á milli Þjóðarpúlsa. Stuðningur við flokkinn mældist 11,4 prósent í lok desember sl. en mælist nú 8,8%. Hlutfallslega tapar Flokkur fólksins mestu, eða nærri þriðjungi þess fylgis sem flokkurinn mældist með í lok desember. Mælist flokkurinn nú í 3,7% en mældist 5,3% í síðasta Þjóðarpúlsi.

Stuðningur við Sósíalistaflokkinn fer úr 3,4% í 5,3% og eykur þannig fylgi sitt um 56% á milli mánaða. Píratar bæta við sig 2 prósentustigum og fara úr 10,7% í 12,7% í nýjum Þjóðarpúlsi.

Sjálfstæðisflokkurinn bætir einn ríkisstjórnaflokka við sig á milli Þjóðarpúlsa og mælist nú með 23,4% stuðning samanborið við 22,7% í lok síðasta árs. Viðreisn missir stuðning á milli Þjóðarpúlsa og fer úr 10,5% niður í 9,1% á sama tíma og Miðflokkurinn bætir við sig og mælist með 6,5% úr 5,7% í síðustu könnun.

Samfylkingin eykur við sig úr 18,4% í 19,1% og Vinstri grænir tapa líttilega og mælast með 11,3% nú samanborið við 11,6% í síðasta Þjóðarpúlsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert