„Ef það verða veggjöld þá greiða jú bensínbílaeigendur eldsneytisgjöld og vegtoll. Rafbílaeigendur borga engin orkugjöld, en vegtoll. Er þetta þá ekki hvatning til þess að skipta um bíl?“ spurði Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna, í umræðum um samgönguáætlun á Alþingi í dag.
„Það er kannski stefna hluta innan meirihlutans, en ég er ekki viss um það að meirihlutinn sé að tala þar einum rómi,“ kom meðal annars fram í svari Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, sem gaf það í skyn að það væri ekki eining innan meirihlutans um þá útfærslu að innheimta veggjöld til viðbótar við óbreytta gjaldtöku tengda rekstri bifreiða.
Hún sagði það ljóst að það myndi hvetja til orkuskipta og að fólk myndi skipta um samgöngumáta ef fólk stæði ekki undir kostnaði vegna gjaldtöku.
„Það er þannig að þessi veggjöld geta liðkað til fyrir orkuskiptum, það er ágætt. En hver er þá munurinn á kolefnisgjaldi og veggjaldi?“ spurði Ari Trausti.