Borgarstjórn samþykkti á borgarstjórnarfundi í dag með öllum greiddum atkvæðum lækkun hámarkshraða við Hringbraut niður í 40 kílómetra hraða. Umferðarhraði var einnig lækkaður á Hofsvallagötu milli Hringbrautar og Ægisíðu, Nesvegi milli Kaplaskjólsvegar og Granaskjóls/Sörlaskjóls og Ægisíðu niður í 40 kílómetra hraða á klukkustund.
Tillaga um lækkun hámarkshraða og aukið umferðaröryggi við Hringbraut og nágrenni samþykkt samhljóða í borgarstjórn. Gaman að gera lífvænlega borg fyrir fólk!
— Katrín Atladóttir (@katrinat) February 5, 2019
Ekið var á barn á Hringbraut við gatnamótin við Meistaravelli í janúar og gagnrýndu íbúar Vesturbæjar aðgerðaleysi yfirvalda gagnvart þeirri hættu sem fylgi umferðinni á götunni. Bentu íbúar m.a. á að hraðakstur sé of tíður á Hringbraut og að ökumenn fari oft yfir á rauðu ljósi.