Kostir og gallar við aukaíbúðir

Nethylur í Ártúnsholti en þar verða aukaíbúðir heimilaðar.
Nethylur í Ártúnsholti en þar verða aukaíbúðir heimilaðar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það eru plúsar og mínusar við þetta,“ segir Elvar Örn Þórisson, formaður íbúasamtaka Árbæjar, Ártúns og Seláss, í samtali við mbl.is. Skipulagsyfirvöld í Reykjavík ætla að heimila 1.730 íbúðir í þrem­ur grón­um hverf­um; Ártúns­holti, Árbæ og Sel­ási. Þar af yrðu heim­ilaðar rúm­lega þúsund auka­í­búðir í nú­ver­andi sér­býli.

Elvar segir að um mismunandi framkvæmdir sé að ræða og að þær hljómi misvel. Hann sjálfur sé hlynntari nýframkvæmdunum en aukaíbúðunum.

Fram kom í Morgunblaðinu fyrir helgi að það komi til greina að heimila aukaíbúðir á fjölbýlishús sem eru án lyftu, til dæmis þriggja til fjögurra hæða fjölbýlishús í Hraunbænum. Það verði í höndum húsfélags að ákveða en lyftur muni bæta aðgengi.

„Það eru tvær hliðar á því. Önnur hliðin er að það kemur lyfta inn og aldrað fólk, sem er kannski orðið fótalúið, getur haft kost á því að búa lengur í sínum eignum,“ segir Elvar.

Hins vegar eru bílastæði í kringum Hraunbæ löngu sprungin og ég tel að þau beri ekki fleiri íbúðir eða fleiri bíla,“ bætir hann við. Hann sér ekki fyrir sér að margir stækki hús sín í Hraunbænum og gerir ekki ráð fyrir því að húsfélög hafi fjármagn til þess.

Hann segir að það sé erfitt að segja til um hugmyndirnar allar í einu vegna þess að þær séu svo misjafnar. „Bygging ofan á Hraunbæ þykir mér vafasöm. Tillögur varðandi nýframkvæmdir eru margar hverjar fínar en eru misgóðar,“ segir Elvar.

Sjö manns eru í íbúasamtökunum og Elvar bendir á að skoðanir hans endurspegli ekki endilega skoðanir allra í stjórninni. „Við höfum setið fundi með hverfisráðinu þegar það var verið að vinna skipulagið. Ég gagnrýndi viðbótarhæðina ofan á Hraunbæ til hliðsjónar við bílastæðavanda. Það eru kostir og gallar við allt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert