Síðasta Áramótaskaup féll landsmönnum ágætlega í geð ef marka má niðurstöður könnunarfyrirtækisins MMR en 62% þátttakenda í könnun fyrirtækisins sem framkvæmd var dagana 4.-14. janúar sögðu Áramótaskaupið hafa verið gott. Niðurstöðurnar má sjá á vef MMR.
33% svarenda töldu skaupið hafa verið mjög gott, 29% sögðu það frekar gott, 17% hvorki gott né slakt, 10% sögðu það frekar slakt og 10% mjög slakt. Að mati MMR er því óhætt að segja að Áramótaskaupið árið 2018 hafi þótt í meðallagi gott en frá árinu 2011 hefur ánægja þrisvar sinnum mælst hærri, árin 2011, 2013 og 2017, og þrisvar sinnum mælst lægri, árin 2012, 2014 og 2016.
Skaupið féll öllu betur í kramið hjá kvenkynssvarendum en 65% þeirra kváðu kaupið hafa verið gott, samanborið við 58% karla. Þá fór ánægjan minnkandi með auknum aldri en 71% yngsta aldurshópsins, 18 til 29 ára, sögðu Skaupið hafa verið frekar eða mjög gott samanborið við einungis 49% þeirra elstu, 68 ára og eldri.
Sé litið til stjórnmálaskoðana fólks virðist Samfylkingarfólk hafa hlegið mest að Skaupinu í ár en 80% þeirra kváðu Skaupið hafa verið gott og aðeins 8% sögðu það hafa verið slakt. Ánægja Pírata með Skaupið mældist 73% og 71% hjá kjósendum Vinstri grænna.
Minnst ánægja var hjá kjósendum Miðflokksins, þar sem ánægjan með Skaupið mældist 33%, og Flokki fólksins, þar sem ánægjan var 45%. Af stuðningsmönnum Miðflokksins sögðu 37% skaupið hafa verið mjög slakt og 19% sögðu það frekar slakt.
Í úrtakinu voru einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR og var svarfjöldi 2061 einstaklingur. Könnunin var framkvæmd dagana 4. til 14. janúar 2019.