Snigilshraði kallar á endurmat

Starfsgreinasambandið telur samningaviðræðurnar vera á snigilshraða og mun sambandið endurmeta …
Starfsgreinasambandið telur samningaviðræðurnar vera á snigilshraða og mun sambandið endurmeta stöðuna á fimmtudag. mbl.is/Eggert

Samningaviðræður Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins „mjakast afar hægt“ segir Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, í samtali við mbl.is. Hann segir samninganefndir funda eftir hádegi í dag og að unnið sé að því að reyna að ná saman.

Spurður út í orð sín um hægagang og hvort það séu ekki takmörk á þolinmæði sambandsins gagnvart viðsemjendum, svarar hann því játandi. „Samninganefnd Starfsgreinasambandsins kemur saman á fimmtudag og endurmetur þá stöðuna,“ segir Flosi.

Hvað felst í því endurmati?

„Þá metum við hvort að þessi snigilshraði sé nægur, hvað sé hægt að gera til þess að flýta viðræðunum og hvort ástæða sé til þess að vísa þeim til ríkissáttasemjara eða taka upp eitthvert annað vinnulag. Það er allt uppi á borðinu,“ segir framkvæmdastjórinn.

Hann segir að markmiðið hafi ávallt verið að ná að ljúka samningaviðræðum áður en samningar rynnu út, en þeir féllu úr gildi um áramótin. „Nú erum við að nálgast miðjan febrúar,“ segir Flosi.

Hvorir á sínum hraða

„Takt­ur­inn í viðræðunum hef­ur verið jafn en ég tel hann fara vax­andi núna,“ var haft eftir Hall­dóri Benja­mín Þor­bergs­son, fram­kvæmda­stjóra Sam­taka at­vinnu­lífs­ins, í Morgunblaðinu í gær.

Þá sagði Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, að viðræður gengju hægt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert