Spyr hvort Helga Vala hafi sofið á fundum

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði það liggja fyrir að hugmynd …
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði það liggja fyrir að hugmynd um innheimtu veggjalda sé óútfærð. mbl.is/​Hari

„Mig langar nánast að varpa þeirri spurningu fram virðulegur forseti hvort háttvirtur þingmaður hafi verið sofandi á fundum nefndarinnar sem hún er þátttakandi í,“ sagði Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag þegar Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði hvort ætlun meirihlutans sé að setja á veggjöld á öll göng á landinu.

Helga Vala benti á að í áliti meirihlutans er varðar veggjöld segi að hætta skuli innheimtu þegar upp er greitt, en þrátt fyrir að Hvalfjarðargöngin séu upp greidd sé í farvatninu að leggja aftur á gjaldtöku þar.

Spurði hún einnig hvernig það fari saman að benda á orkuskipti sem grundvöll fyrir gjaldtöku, en á sama tíma segjast ætla að hætta slíkri innheimtu þegar vegirnir hafa verið lagðir.

Sagði Jón það ítrekað hafa komið fram að innheimta veggjalda sé óútfærð og að það þyrfti að gæta sanngirni í málflutningi um málið. Benti hann á að hugmyndir um að leggja á veggjöld víðar um landið sé til þess gert að jafna innheimtu milli landshluta þannig að veggjöld leggist jafnt á landsmenn alla.

Sakaði þingmaðurinn síðan Helgu Völu um að reyna að slá ryki í „augu og eyru þeirra sem á okkur eru að hlusta“.

Umræða um samgönguáætlun stendur nú yfir og er talsverður fjöldi þingmanna á mælendaskrá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert