Hið flennistóra tungllíkan sem hefur verið sett upp í Hörpu er byrjað að heilla gesti hússins. Listaverkið er afar tilkomumikið en það er sjö metrar í þvermál og í hlutföllunum 1:500.000. Einn sentimetri á líkaninu samsvarar fimm kílómetrum á sjálfu tunglinu. Notaðar voru háskerpumyndir frá NASA til að prenta á kúluna sem hefur ferðast víða um heiminn. Það er breski listamaðurinn Luke Jerram sem á heiðurinn að verkinu, sem nefnist The museum of the moon á ensku, en hann hefur sérhæft sig í að setja upp stór verk í almannarýmum á ferli sínum.
Tunglið mun setja svip sinn á Hörpu þar til á mánudaginn 11. febrúar og er þar í tilefni af UTmessunni sem fer fram þessa dagana í húsinu. Sérstök dagskrá helguð tunglferðunum er á UTmessunni í ár í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá því að Neil Armstrong steig fæti á tunglið.