Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við mbl.is tillögu meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar um innheimtu veggjalda vera einmitt til þess fallna að opna á gjaldtöku við jarðgöng sem þegar hafa verið byggð.
„Hugmyndin gengur út á það. Það er algjörlega verið að horfa á það sem jöfnunaratriði,“ segir Jón.
„Það er sem sagt hugmyndin að það verði hafin gjaldtaka á svipuðum nótum og annars staðar til þess að jafna álagið á landsmenn ef við förum þessa leið og eins til þess að standa undir þeim umframkostnaði sem verður við rekstur og þjónustu í jarðgöngum, auk þess að geta vetið ákveðinn grunnur að fjármögnun jarðgangaáætlunar,“ segir þingmaðurinn.
Jón fullyrðir að hlutfallslega séu jarðgöng dýrari í rekstri en hefðbundinn vegakafli í vegakerfinu, en tekur sérstaklega fram að ekki hafi verið gerðar fullmótaðar tillögur að því hvar slík gjaldtaka myndi eiga sér stað. Hann segir slíkt koma með væntanlegu frumvarpi ráðherra í vor.
Óhætt er að segja að veggjöldin hafi þótt umdeild, en 1.470 einstaklingar hafa nú sent umhverfis- og samgöngunefnd umsögn vegna málsins.