Íbúar létu í ljós óánægju sína með lýsingu og merkingar á Hringbrautinni á fundi í Vesturbæjarskóla í kvöld.
Fjörugar umræður sköpuðust á fundinum. Þar voru til svara fulltrúar frá Vegagerðinni, samgönguráðuneytinu, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavíkurborg og Samgöngustofu.
„Allir voru tilbúnir til þess að hlusta á raddir íbúa, sem er það mikilvægasta í þessu. Við vitum að það þarf að gera eitthvað núna og ekki að bíða eftir stóru slysi. Til þess er leikurinn gerður,“ segir Guðrún Birna Brynjarsdóttir, skipuleggjandi fundarins.
Hún segir að nú sé tækifæri fyrir borgina að endurhugsa hlutverk Hringbrautarinnar. „Vilja þau hafa ásýndina dimma og drungalega eða vilja þau hafa hana með góðri og bættri lýsingu og með meiri borgarbrag?“ segir hún og bætir við að fundurinn hafi verið haldinn til að opna samtalið á milli þeirra stofnana sem koma að „þessum litla vegspotta sem þverar Vesturbæinn“.
Hún segir ekki nóg að setja gagnbrautavörð í hálftíma við gangbrautaljós á morgnana til að passa upp á börnin. Hugsa þurfi í lausnum en ekki plástrum. „Vonandi ýtir þetta við þessum aðilum. Þeir voru tilbúnir að hlusta og þeir fara núna með þetta verkefni í vinnuna.“
Borgarráð samþykkti nýlega að lækka lágmarkshraða á Hringbraut í 40 km á klukkustund. Guðrún Birna bendir á að lögreglan eigi eftir að samþykkja þetta, síðan þurfi að setja tilkynningu í Stjórnartíðindi og eftir það taki við tveggja vikna bið í viðbót. Það mál sé því ekki komið í höfn en það verði frábært fyrsta skref þegar það gerist.