Reiknar með Ágústi aftur á þing

Ágúst Ólafur Ágústsson og Logi Einarsson.
Ágúst Ólafur Ágústsson og Logi Einarsson. mbl.is/​Hari

„Hann er ekki að koma á morgun,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, um Ágúst Ólaf Ágústsson, þingmann flokksins. Á morgun eru tveir mánuðir síðan Ágúst tilkynnti um tveggja mánaða leyfi frá störfum vegna áminningar sem hann fékk frá trúnaðarnefnd flokksins.

Ágúst Ólaf­ur greindi frá því á Face­book-síðu sinni 7. des­em­ber sl. að hann hefði fengið áminn­ingu frá trúnaðar­nefnd Sam­fylk­ing­ar­inn­ar vegna fram­komu sinn­ar í garð konu í byrj­un síðasta sum­ars. Ágúst Ólaf­ur áreitti hana kyn­ferðis­lega og þegar hún hafnaði hon­um ít­rekað fór hann sær­andi orðum um hana. 

Bára Huld Beck, blaðamaður á Kjarnanum, greindi frá því fjórum dögum síðar að hún væri umrædd kona. Hún sagði lýsingu Ágústs á atvikinu ekki í samræmi við sína upplifun og að hann hafi reynt að gera minna úr því en hann hafi áður gengist við.

Ágúst Ólafur Ágústsson.
Ágúst Ólafur Ágústsson. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Logi segir að það skýrist fljótlega hvenær Ágúst snýr aftur á Alþingi og að látið verði vita af því með fyrirvara. Kjördæmadagar eru í næstu viku og því ljóst að Ágúst tekur ekki sæti aftur á Alþingi fyrr en í fyrsta lagi mánudaginn 18. febrúar.

Gerið þið ráð fyrir því að hann komi aftur?

„Það er reiknað með því. Hann er enn að vinna í sínum málum en ég veit ekki annað,“ segir Logi.

Reynt var að ná tali af Ágústi en án árangurs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert