Segir frásögnina „hugarburð og heilaspuna“

Bryndís Schram ásamt eiginmanni sínum, Jóni Baldvini Hannibalssyni.
Bryndís Schram ásamt eiginmanni sínum, Jóni Baldvini Hannibalssyni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Bryndís Schram, eiginkona Jóns Baldvins Hannibalssonar, segir frásögn konu þar sem hún sakar Jón Baldvin um kynferðisbrot vera „hugarburð og heilaspuna“. Sagan er ein af þeim 23 nafnlausu frásögnum kvenna af kynferðislegri áreitni Jóns Baldvins, fyrr­ver­andi ut­an­rík­is­ráðherra og for­manns Alþýðuflokks­ins, sem birtar voru á mánudag.

Í umræddri frásögn, sem mbl.is hefur fjallað um, segir konan frá því að Jón Baldvin hafi sem ut­an­rík­is­ráðherra verið yf­ir­maður föður henn­ar sem verið hafi sendi­herra í London árið 1991 þegar hann bað hana um að setjast í fangið á sér í veislu á heimili foreldra sinna.

„Hann er blaut­ur af svita og lykt­ar hræðilega. Lykt­in.... hún var svo stæk. Og hann gríp­ur um brjóst­in á mér og sleik­ir á mér eyr­un og háls­inn. Ég lít upp eft­ir hjálp og sé Bryn­dísi. En hún er að brosa. Hún bros­ir til mín. Og ég frýs,“ seg­ir meðal annars í frásögn konunnar.

Bryndís neitar að umrætt atvik hafi átt sér stað. „Að ég hafi verið viðstödd, og aumkast yfir skíthælinn, sem þar er lýst, væntanlega af meðfæddri aumingjagæsku; og beðið stúlkuna að fyrirgefa honum. Trúlegt – eða hitt þó heldur!“ segir í aðsendri grein Bryndísar í Fréttablaðinu í dag.

Í frásögn konunnar segir að verst geymda leyndarmál hennar sé hatur hennar á hjónunum. Bryndís svarar henni með því að segja að hún myndi aldrei biðja griða manni sem hegðar sér eins og þarna er lýst. „Nú er „verst geymda leyndarmál“ söguberans – „hatur (hennar) á þeim hjónum“, eins og hún orðar það sjálf, ekki lengur leyndarmál. Hún hefur veitt hatri sínu útrás,“ skrifar Bryndís.

Bryndís segist geta svarað fyrir frásögn konunnar þar sem hún hefur nú stigið fram í sviðsljósið. „En hvað með allar hinar, sem fela sig á bak við nafnleynd? Svo lengi sem þær þora ekki að standa við orð sín, hljóta þau að teljast „dauð og ómerk“,“ skrifar Bryndís.

Þá ber hún atburðarás síðustu daga og vikna, frá því að fjallað var um frásagnir kvenna af kynferðislegri áreitni Jóns Baldvins, saman við hatur sem hún hefur áður horfst í augu við á lífsleiðinni tengt starfi eiginmanns hennar í stjórnmálum. Nú sé hatrið hins vegar „afskræmt af heift og hefnigirni út yfir gröf og dauða. „Það er helsjúkt og hamslaust,“ segir Bryndís.

Hún spyr jafnframt: „Hvers vegna þessi iðandi ormagarður af hatri? Lifi ég í þjóðfélagi sem er sjúkt? Þarf þetta þjóðfélag áfallahjálp? Og hvar er hennar að leita?“   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert