„Þetta er ótrúleg óvandvirkni“

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar.
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert

„Hér er einfaldlega stjórnarmeirihlutinn að svíkja kosningaloforð sín. Hér eru þingmenn stjórnarmeirihlutans að pakka inn í einhvern veggjaldapakka nauðsynlegum framkvæmdum, sem ættu að vera hér fremst í forgangsröðinni, og segja: Þessar umbætur í vegamálum getið þið ekki fengið nema greiða aukalega fyrir.“

Þetta sagði Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, á Alþingi í dag í umræðum um samgönguáætlun. Vísaði hann þar til þess að þær framkvæmdir sem rætt hafi verið um að taka út úr samgönguáætlun og fjármagna þess í stað með veggjöldum væru allt framkvæmdir sem þingmenn og frambjóðendur hefðu þegar lofað kjósendum að yrði farið í og þær fjármagnaðar með því skattfé sem þegar væri innheimt.

Þorsteinn sagði annað mál með framkvæmdir eins og til dæmis Sundabraut sem ekki hefði verið á samgönguáætlun. Þorsteinn sagðist enn fremur ekki vera andvígur hugmyndinni um veggjöldin en sagði vinnubrögð stjórnarmeirihlutans óásættanleg. Ef breyta ætti fyrirkomulaginu á fjármögnun vegaframkvæmda í grunvallaratriðum, eins og til stæði með áformum ríkisstjórnarinnar, ætti ekki að gera það í tímapressu.

„Full ástæða til að vanda hér til verks“

„Það þarf að vanda til umræðunnar, það þarf að vanda til verka þegar það á að ráðast í grundvallarbreytingar í samfélaginu og hér erum við að tala um nýja fjármögnunarleið á vegsamgöngur sem er full ástæða til að taka alvarlega umræðu um,“ sagði Þorsteinn. Hins vegar þyrfti að tryggja að slík gjalddtaka væri sanngjörn og skilvirk fyrir alla landsmenn. Áform stjórnarmeirihlutans myndu bitna mest á íbúum á suðvesturhorninu.

Þorsteinn sagðist ekki gera athugasemd við það að meirihluti þess fjármagns sem varið væri í vegasamgöngur færi í landsbyggðina. Það gæfi auga leið að þess þyrfti í stóru og víðfeðmu landi með fáa íbúa. Hins vegar gagnrýndi hann harðlega að suðvesturhornið væri skilið eftir algerlega óbætt hjá garði án þess að fyrir lægi hvernig ætti að ráðast í nauðsynlegar samgöngubætur í þeim landshluta.

Þá sagðist hann gera verulega athugasemdir við að ráðist væri í slíkar grundvallarbreytingar á fjármögnun vegakerfisins án þess að kannað væri með nokkrum hætti hvaða áhrif það hefði á íbúa landsins til að mynda með tilliti til búsetu og varðandi umhverfismál og orkuskipti. „Þetta er ótrúleg óvandvirkni í opinberri stefnumótun.“ Aðrar þjóðir tækju einhver ár í að undirbúa slíkar breytingar.

„Það er full ástæða til að vanda hér til verks og staðreyndin er auðvitað sú að það þarf ekki að gaumgæfa þetta mál lengi til að átta sig á því að auðvitað eru til aðrar leiðir til þess að fjármagna þessar nauðsynlegu framkvæmdir.“ Vísaði hann þar til sölu á hlutum ríkisins í bönkum. Hins vegar væri engin samstaða um það í ríkisstjórninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert