Framkoma Reykjavíkurborgar ámælisverð

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vinnsla Reykjavíkurborgar og rannsakenda við Háskóla Íslands á persónuupplýsingum frá Þjóðskrá Íslands, sem fólst í sendingu mismunandi skilaboða með bréfum og smáskilaboðum til ungra kjósenda og skilaboðum til kvenna 80 ára og eldri og erlendra ríkisborgara fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí 2018, samrýmdist ekki persónuverndarlögum. Þetta kemur fram í úrskurði Persónuverndar sem birtur var á vef stofnunarinnar í dag, en umrædd skilaboð voru m.a. send í því skyni að auka kjörsókn.

Niðurstaða Persónuverndar er að Reykjavíkurborg og rannsakendurna hafi skort heimild til vinnslunnar og ekki gætt að ákvæðum þágildandi persónuverndarlaga, m.a. um gagnsæi og fyrirsjáanleika.

Persónuvernd gagnrýnir Reykjavíkurborg sérstaklega fyrir að hafa ekki veitt Persónuvernd fullnægjandi svör eftir að stofnunin hafði sérstaklega óskað eftir því. Upphaflega féllst Persónuvernd á vinnslu persónuupplýsinga sem fælist í því að senda ungum kjósendum, og þá öllum ungum kjósendum, smáskilaboð með upplýsingum um staðsetningu kjörstaðar og fyrirkomulag kosninga, með hlekk á tilgreinda upplýsingasíðu.

Þessi afstaða byggði á upplýsingum í fyrstu tilkynningu Reykjavíkurborgar um áform sín. Síðar kom í ljós að fyrirætlan Reykjavíkurborgar var ekki aðeins þessi, heldur víðtækari að mati Persónuverndar. Af þessum sökum þurfti Persónuvernd að óska sérstaklega viðbótargagna í málinu. Telur Persónuvernd að svör borgarinnar í þessum samskiptum hafi verið óskýr og ófullnægjandi.

Þar að auki er vinnsla Þjóðskrár Íslands á persónuupplýsingum sem fól í sér afhendingu upplýsinganna til borgarinnar um kyn og ríkisfang erlendra ríkisborgara, ekki talin hafa verið í samræmi við persónuverndarlög að mati Persónuverndar.

Annað en fyrstu upplýsingar gáfu til kynna

Fyrirhugað var að skilaboð til ungra kjósenda, n.t.t. þeirra sem þá höfðu kosningarétt í fyrsta skipti, yrðu hluti rannsóknar á vegum Háskóla Íslands á áhrifaþáttum sem máli skiptu fyrir kjörsókn. Voru fjórar mismunandi útgáfur hvatningarskilaboða sendar í því skyni að rannsaka áhrifamátt ólíkra bréfa og smáskilaboða á kjörsókn þessa hóps. Helmingur hinna ungu kjósenda fékk smáskilaboð auk bréfsendingar. 

Reykjavíkurborg vísaði til þess að vinnsla umræddra persónuupplýsinga hafi verið nauðsynleg vegna verks sem unnið hafi verið í þágu almannahagsmuna líkt og heimild er fyrir í eldri persónuverndarlögum. 

Fram kemur í úrskurði Persónuverndar, með vísan til fyrsta bréfs stofnunarinnar til borgarinnar, að heimild geti verið fyrir vinnslu persónuupplýsinga sem fælist í því að senda ungum kjósendum, og þá öllum ungum kjósendum [...] smáskilaboð með upplýsingum um staðsetningu kjörstaðar og fyrirkomulag kosninga, með hlekk á tilgreinda upplýsingasíðu.

„Hins vegar liggur einnig fyrir að sú vinnsla persónuupplýsinga sem hér um ræðir fól annað í sér en hlutlaus skilaboð með upplýsingum um kosningarétt og framkvæmd kosninga til allra ungra kjósenda sem höfðu í fyrsta sinn kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum 2018,“ segir í úrskurði Persónuverndar. Þá er rakið að tilgangur aðgerðanna hafi ekki aðeins verið að upplýsa og fræða, heldur hafi þær einnig verið þáttur í rannsókn á kosningahegðun þar sem mismunandi skilaboð voru send til þeirra sem höfðu kosningarétt í fyrsta sinn.

Vísað var til þess af hálfu Reykjavíkurborgar og rannsakenda að almannahagsmunir væru af því að skilja lága og minnkandi kjörsókn ungra kjósenda og annarra hópa og bregðast við henni. Hagsmunir hinna skráðu af því að fá ekki óumbeðnar bréfa- eða smáskilaboðasendingar væru hins vegar óverulegir. Þessu hafnaði Persónuvernd.

„Ljóst er af því sem fram hefur komið um umrædda rannsókn að hún miðaði ekki að því að skilja lága og minnkandi kjörsókn ungra kjósenda og annarra hópa og því er ekki hægt að vísa til hagsmuna þar að lútandi um heimild fyrir vinnslunni. Þá liggur einnig fyrir að umrædd bréf og smáskilaboð voru ekki send í þeim tilgangi einum að hinir skráðu fengju sem gleggstar upplýsingar um kosningar og fyrirkomulag þeirra,“ segir í úrskurðinum.

Ekki nauðsynlegt að upplýsa konur 80 ára og eldri um kosningarétt

Um bréfin sem send voru konum 80 ára og eldri og erlendum ríkisborgurum segir Persónuvernd að þau hafi ekki aðeins verið til upplýsinga og fræðslu, heldur einnig haft að geyma hvatningu til að kjósa. Í úrskurðinum segir að í lögum hafi verið heimild til vinnslu persónuupplýsinga væri hún nauðsynleg vegna verks sem unnið væri í þágu almannahagsmuna. Persónuvernd tekur fram í þessu sambandi að engin rök standi til þess að upplýsa konur 80 ára og eldri um kosningarétt þeirra.

Þá er áréttað að gerðar hafi verið kröfur um gagnsæi og fyrirsjáanleika við vinnslu persónuupplýsinga í persónuverndarlögum. Ríkar kröfur verði að gera í þeim efnum varðandi notkun kjörskráa.

„Telur Persónuvernd það ekki samrýmast þeim kröfum að opinberir aðilar sendi tilteknum hópum kjósenda hvatningu um að nýta kosningarétt sinn í aðdraganda kosninga. Þegar af þeirri ástæðu telur Persónuvernd umrædda sendingu bréfa til kvenna 80 ára og eldri og erlendra ríkisborgara ekki geta fallið undir 5. tölulið 8. gr. laga nr. 77/2000 eða aðrar heimildir sama ákvæðis. Var vinnsla persónuupplýsinga vegna sendingar bréfanna því ekki í samræmi við lög nr. 77/2000,“ segir í úrskurði Persónuverndar.

Alvarlegt að svara ekki með skýrum og fullnægjandi hætti

Persónuvernd gagnrýnir Reykjavíkurborg harðlega í úrskurði sínum fyrir óljósa upplýsingagjöf í samskiptum við Persónuvernd. Taldi Persónuvernd að rannsakendurnir við HÍ bæru ekki ábyrgð á ónógri upplýsingagjöf í ljósi þess að fyrstu upplýsingaskipti um áform borgarinnar og rannsakendanna voru við Reykjavíkurborg.

„Í svörum Reykjavíkurborgar hafa [...] ekki komið fram fullnægjandi skýringar á því hvers vegna Persónuvernd voru ekki veittar upplýsingar um alla þætti málsins eftir að stofnunin óskaði sérstaklega eftir því með bréfi, dagsettu 14. maí 2018. Að mati Persónuverndar verður að telja það alvarlegt að ábyrgðaraðili að vinnslu persónuupplýsinga, sem í þessu tilviki er stærsta sveitarfélag landsins, skuli láta undir höfuð leggjast að svara fyrirspurnum eftirlitsvalds með skýrum og fullnægjandi hætti. Verður það að teljast ámælisvert í ljósi eftirlitshlutverks stofnunarinnar samkvæmt 1. mgr. og 2. og 6. tölulið 3. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert