„Okkur þótti ekki sjálfgefið að vinstri flokkarnir innan meirihlutans tækju upp hjá sjálfum sér að úthluta í sinn hóp þeirri nefndarformennsku sem við teljum okkur hafa stöðu til að stjórna,“ segir Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins.
Bergþór lét af störfum sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í morgun og gerði tillögu um formennsku Jóns Gunnarssonar, fyrrverandi sveitarstjórnar- og samgönguráðherra, úr Sjálfstæðisflokki. Bergþór og Karl Gauti Hjaltason, sem er utan flokka, greiddu tillögunni atkvæði af fulltrúum stjórnarandstöðunnar. Allir fulltrúar meirihlutans greiddu atkvæði með tillögunni fyrir utan Rósu Björk Brynjólfsdóttur, þingmann Vinstri grænna.
„Sennilega var aldrei nein sátt í boði stjórnarandstöðumegin. Það liggur fyrir að Samfylkingin og Píratar hafa tvær af þessum þremur nefndarformennskum sem minnihlutinn fékk í upphafi þings, Miðflokkurinn fékk þriðju í ljósi þingstyrksins,“ segir Bergþór.
„Mér líst vel á að störf nefndarinnar séu komin í þennan farveg. Jón hefur stýrt nefndinni af festu og öryggi þann tíma sem ég hef verið í leyfi. Nú reikna ég með að hann geri það hér eftir líkt og hingað til,“ segir Bergþór. Spurður hvort túlka megi tillögu hans sem stuðning við ríkisstjórnina segir hann svo ekki vera.
„Nei, þetta er bara stuðningur við Jón Gunnarsson sem formann. Það er sem betur fer þannig að á mörgum sviðum er ágætissamstarf innan þingsins. Það hafa verið reglulegar uppákomur síðustu tvær vikur og ég vona að fólk fari að sinna sínum störfum og leikritið verði ekki eins áberandi og verið hefur,“ segir Bergþór.
„Ég reikna með því að störf nefndarinnar komist í góðan farveg núna, það er mikið af stórum málum fram undan. Það kæmi mér sannast sagna mjög á óvart ef fulltrúar stjórnarandstöðunnar þvælist fyrir störfum nefndarinnar vegna ósættis sem þau upplifa, ég held að það sé ágæt sátt um þetta svona, kosningin fór 6-3 áðan,“ segir Bergþór um tillöguna sem hann bar upp á fundinum í morgun.